Tekinn af lífi fyrir tvö morð

AFP

Karlmaður var í gærkvöldi tekinn af lífi í Texas-ríki í Bandaríkjunum vegna morðs á tveimur starfsmönnum Subway-matsölustaðar í borginni Dallas árið 2002. Maðurinn, Terry Edwards, var tekinn af lífi með banvænni sprautu en hann var 43 ára að aldri.

Fram kemur í frétt AFP-fréttaveitunnar að lögfræðingar Edwards hafi kallað eftir endurskoðun á máli hans á þeim forsendum að hann hafi fengið lélega málsvörn og verið dæmdur af kviðdómi sem einungis hvítir hafi setið í. Sjálfur var hann svartur. Þeir hafa haldið því fram að svörtum væri kerfisbundið haldið frá því að sitja í kviðdómum.

Máli Edwards hafði verið áfrýjað og fór það alla leið til Hæstaréttar Bandaríkjanna sem hafnaði endurskoðun þess nokkrum klukkustundum áður en aftakan fór fram. Edwards var dæmdur til dauða fyrir morðin ásamt frænda sínum Kirk Edwards.

Frændurnir flúðu af vettvangi með þrjú þúsund dollara en Edwards hafði nokkrum vikum áður verið rekinn úr vinnu á matsölustaðnum. Vitni hélt því fram að það hefði séð Edwards losa sig við morðvopnið í ruslatunnu í kjölfar ránsins.

Verjendur Edwards sögðu að sérfræðingur hefði sýnt fram á að ekki hefði verið hleypt af byssu Edwards. Frændi hans samdi við saksóknara um játningu gegn 25 ára fangelsi. Ólíkt frænda sínum hafði Edwards ekki áður komist í kast við lögin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert