Minnast Díönu með styttu

Díana prinsessa árið 1997.
Díana prinsessa árið 1997. AFP

Bræðurnir Vilhjálmur Bretaprins, hertoginn af Cambridge, og Harry Bretaprins hafa gefið leyfi fyrir því að reist verði stytta af móður þeirra, Díönu prinsessu, 20 árum eftir að hún lést af slysförum.

Þeir segja að nú sé rétti tíminn til að reisa styttu til að minnast Díönu og verka hennar. 

Styttan verður reist í almenningsgarði við Kensington-höll þar sem hún bjó, að því er segir á vef BBC.

Ekki er búið að ákveða hvaða listamaður muni taka verkefnið að sér en talsmaður prinsanna segir að brátt muni menn hefjast handa við að ákveða útlit styttunnar. 

„Það eru liðin 20 ár frá andláti móður okkar og við teljum að nú sé tímabært að minnast jákvæðra áhrifa hennar í Bretlandi og um allan heim með því að reisa styttu,“ segir í yfirlýsingu sem bræðurnir hafa sent frá sér í sameiningu. 

„Móðir okkar snerti marga. Við vonum að styttan muni gera öllum sem heimsækja Kensington-höll kleift að minnast hennar og hennar arfleifðar,“ segja synir hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert