Le Pen neitar að endurgreiða

Catherine Griset - mynd á Twitter síðu hennar.
Catherine Griset - mynd á Twitter síðu hennar.

Frestur sem Evrópuþingið veitti formanni franska þjóðernisflokksins Front National, Marine Le Pen, til þess að endurgreiða yfir 300 þúsund evrur, sem svarar til 37,4 milljóna króna, til baka sem hún eyddi án heimildar, rann út á miðnætti án þess að peningarnir skiluðu sér.

Le Pen, sem býður sig fram til embættis forseta í heimalandinu, segir að það hvarfli ekki að sér að endurgreiða fjármunina. Hún sé fórnarlamb pólitískra hefndaraðgerða og krafan eigi sér enga stoð. Samkvæmt upplýsingum frá Evrópuþinginu notaði Le Pen féð ranglega til þess að greiða fyrir aðstoð í höfuðstöðvum Front National í París. 

Ef Le Pen endurgreiðir ekki getur Evrópuþingið brugðist við með því að halda eftir helming launa hennar og risnu sem nemur tæplega 11 þúsund evrum á mánuði, sem jafngildir tæplega 1,4 milljónum króna.  

Le Pen hefur heitið því að ef hún verður kjörinn forseti Frakklands þá verði Frökkum boðið upp á að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu úr Evrópusambandinu líkt og Bretar samþykktu síðasta sumar. Hún er mjög á móti ESB og mikill stuðningsmaður Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna og Vladimírs Pútín, forseta Rússlands.

Skoðanakannanir benda til þess að hún komist áfram í aðra umferð forsetakosninganna og muni mæti Franço­is Fillon, frambjóðanda Les Repu­blicains eða Emmanuel Macron, frambjóðanda En-Marche.

Peningarnir sem Evrópuþingið fer fram á að Le Pen endurgreiði voru notaðir til þess að greiða Catherine Griset, náinni vinkonu Le Pen og framkvæmdastjóra flokksins, laun. Skilyrði voru sett fyrir greiðslunni til Front National af hálfu Evrópuþingsins þess efnis að Griset myndi meirihluta vinnutíma síns í Brussel eða Strassborg. Aftur á móti heldur þingið því fram að hún hafi nánast alfarið starfað í höfuðstöðvum flokksins í París. Jafnframt verður gerð krafa á Front National að flokkurinn endurgreiði laun lífvarðar Griset, alls 41.554 evrur, sem jafngildir um 5,2 milljónum króna. 

Frétt BBC

Frétt Le Monde

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert