Þrefaldur morðingi tekinn af lífi

Mark Christeson.
Mark Christeson.

Mark Christeson, 37 ára, var tekinn af lífi í nótt í Missouri fyrir þrefalt morð árið 1998. Christeson, sem mældist með greindarvísitöluna 74, er sá fjórði sem tekinn er af lífi í Bandaríkjunum í ár en hann var 18 ára þegar hann framdi morðin. 

Mark Christeson var tekinn af lífi með banvænni sprautu fyrir morðið á Susan Brouk auk tveggja barna hennar, 12 ára gamalli dóttur, Adrian, og Kyle, níu ára gömlum syni hennar. 

Þeir Christeson og félagi hans og frændi Jesse Carter, sem var 17 ára gamall, brutust inn á heimili Susan Brouk og barna í febrúar 1998. Þeir bundu börnin og Christeson nauðgaði Brouk, samkvæmt skjölum málsins. Eftir að annað barnið bar kennsl á þá sagði Christeson við Carter að þeir yrðu að losa sig við þau.

Þeir komu Brouk og börnum hennar fyrir í bíl hennar ásamt þýfi sem þeir stálu af heimili þeirra og óku með þau að tjörn í nágrenni. Í ákærunni kom fram að Christeson skar Brouk á háls og eins Kyle. Hann kæfði Adrian og henti síðan Brouk, sem var enn á lífi, í tjörnina ásamt börnum sínum sem voru látin af völdum áverka sem hann hafði veitt þeim. 

Lögmaður Christesons áfrýjaði fyrirhugaðri aftöku til hæstaréttar á mánudag á grundvelli mistaka sem fyrri lögmenn hans höfðu gert á sínum tíma. Hæstiréttur hafnaði beiðni lögmannsins og eins synjaði ríkisstjóri Missouri, Eric Greitens, Christeson um miskunn.

Verjandi Christesons vísaði við áfrýjunina til greindarvísitölu skjólstæðings síns og að hann hefði ekki haft nægjanlega vitsmuni til þess að skilja réttindi sín fyrir rétti. 

Þeir sem mælast með greindarvísitölu á bilinu 70-79 teljast á mörkum greindarskerðingar. Þeir sem eru á bilinu 90-109 eru meðalgreindir.

Carter var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir aðild sína að málinu.

Frétt NRK

Frétt Reuters

Murderpedia

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert