Segir flóttamenn ekki hættulega

Filippo Grandi gagnrýnir bann Bandaríkjamanna.
Filippo Grandi gagnrýnir bann Bandaríkjamanna. AFP

Filippo Grandi, yfirmaður flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, hefur gagnrýnt tímabundið bann Bandaríkjanna við komu flóttamanna til landsins og hvetur þjóðir heimsins til að bjóða velkomna þá sem eru að flýja stríðsátök.

„Þetta fólk er á flótta undan hættu, það er ekki sjálft hættulegt,“ sagði Grandi.

„Það á að taka vel á móti þessu fólki, það á að finna fyrir samkennd og örlæti. Það á ekki að tengja það við hættu eða ógn, því þannig er það ekki.“

Grandi tjáði sig um þetta í Líbanon þar sem um ein milljón sýrlenskra flóttamanna dvelur, auk 450 þúsund palestínskra flóttamanna.

Filippo Grandi tekur ljósmynd af húsarústum í sýrlensku borginni Aleppo.
Filippo Grandi tekur ljósmynd af húsarústum í sýrlensku borginni Aleppo. AFP

Hann varaði við því að tilskipun Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, um að ekki verði tekið á móti flóttamönnum næstu 120 dagana og sýrlenskum flóttamönnum um óákveðinn tíma, gæti haft „hættulegar“ hliðarverkanir.

„Þetta veikir mjög alþjóðlega samstöðu með flóttamönnum,“ sagði hann.

„Við þurfum ríkar þjóðir til að styðja þjóðir eins og Líbanon, Kenýa, Pakistan og fleiri lönd sem eiga erfitt með að hýsa milljónir flóttamanna. Annars fara þær að spyrja sig: „Hvers vegna ættum við að gera það?",“ bætti hann við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert