Segir son sinn saklausan

Fransk­ur hermaður, sem var á vakt við Louvre-lista­safnið í Par­ís, …
Fransk­ur hermaður, sem var á vakt við Louvre-lista­safnið í Par­ís, skaut vopnaðan mann við safnið í gærmorg­un. AFP

Faðir mannsins sem grunaður er um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk í Louvre-listasafninu í París segir son sinn ekki hafa sýnt nein merki um öfgafulla hegðun og trúir því að hann sé saklaus. Fransk­ur hermaður, sem var á vakt við listasafnið, skaut manninn niður áður en hann náði að láta til skarar skríða.

Reda El-Hamahmy, faðir mannsins, er nú sestur í helgan stein en hann starfaði áður sem lögreglumaður. Í viðtali við AFP-fréttaveituna segir El-Hamahmy að hann hafi verið í miklu sambandi við son sinn sem starfaði sem sölustjóri í Sharjah í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

„Hann fór í vinnuferð og þegar henni lauk fór hann að skoða safnið. Hann ætlaði síðan að fara aftur heim á sunnudaginn,“ sagði El-Hamahmy og bætti við að sonur sinn hefði aldrei sýnt nein merki um öfgafulla hegðun.

Kom til Frakklands frá Dubai  

El-Hamahmy er viss um að sá grunaði sé sonur sinn þar sem hann hefur ekkert heyrt í honum síðan á föstudag. „Lögreglan kom hingað í gær og bað um upplýsingar um hann svo ég gaf þeim allt sem ég á um hann.“

Málið er nú í rannsókn hjá frönsku lögreglunni en maðurinn sem var skotinn niður er 29 ára gamall og frá Egyptalandi. Hann kom til Frakklands frá Dubai 26. janúar.

Hann var vopnaður sveðju og kallaði „Alla­hu Ak­b­ar“ eða „guð er góður“ í árás­inni og var með tvo bak­poka á sér. Sprengju­sveit lög­regl­unn­ar hef­ur lokið rann­sókn á inni­haldi pok­anna og er ekk­ert sprengi­efni þar að finna. 

Samkvæmt heimildum AFP-fréttaveitunnar var maðurinn fluttur á spítala og er ástand hans nú stöðugt.

Frétt mbl.is - Komið í veg fyrir árás á Louvre

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert