Neðri deildin samþykkir Brexit

Þingmenn neðri deildar breska þingsins hafa samþykkt að heimila ríkisstjórninni …
Þingmenn neðri deildar breska þingsins hafa samþykkt að heimila ríkisstjórninni að hefja úrsagnarferlið. AFP

Neðri deild breska þingsins samþykkti með 494 atkvæðum gegn 122 að heimila ríkisstjórninni að hrinda af stað úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Clive Lewis, viðskiptaráðherra í skuggaríkisstjórn Verkamannaflokksins, var meðal 52 flokkssystkina sinna sem fóru gegn tilmælum flokksforystunnar og greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, og sagði af sér í kjölfarið.

Frumvarpið verður nú tekið til umræðu í lávarðadeildinni. Forsætisráðherrann Theresa May hefur sagt að hún vilji hefja úrsagnarferlið fyrir marslok en það gerir hún með því að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans.

Lewis sagði af sér er þingmenn gengu til lokaatkvæðagreiðslu. Sagðist hann ekki samvisku sinnar vegna geta greitt atkvæði með einhverju sem hann teldi að myndi skaða borgina sem hann unni og kallaði heimili.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagðist hafa skilning á þeim erfiðleikum sem blöstu við sumum þingmanna við atkvæðagreiðsluna en sagði að þeim hefði verið fyrirskipað að greiða atkvæði með 50. greininni þar sem flokkurinn myndi ekki koma í veg fyrir Brexit.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert