Upplifa von- og ástleysi

Afgönsk stúlka í flóttamannabúðum í Belgrad.
Afgönsk stúlka í flóttamannabúðum í Belgrad. AFP

Alda sjálfsvígstilrauna meðal barnungra afganskra hælisleitenda í Svíþjóð hefur vakið áhyggjur meðal sjálfboðaliða og annarra sem starfa með flóttafólki. Á síðustu tveimur vikum gerðu sjö hælisleitendur, sem allir komu einir síns liðs til Svíþjóðar, tilraun til að svipta sig lífi.

Þrír létust, allir afganskir táningar undir 18 ára aldri, að sögn Mahboba Madadi, sem starfar náið með barnungum hælisleitendum fyrir hjálparsamtök.

Atvikin áttu sér stað á dvalarmiðstöðvum víðs vegar um Svíþjóð.

Madadi segir sjálfsvígin og sjálfsvígstilraunirnar mega rekja til vonleysis en í kjölfar þess að sænsk yfirvöld endurskoðuðu öryggismat í desember sl. og komust að þeirri niðurstöðu að sum svæði í Afganistan væru öruggari en önnur hafa útlendingayfirvöld vísað til öryggismatsins til að hafna afgönskum umsækjendum.

„Það eru svæði í Afganistan þangað sem maður getur snúið aftur,“ hefur AFP eftir talsmanni sænsku útlendingamálastofnunarinnar. Hann sagði hins vegar að ungmenni 18 ára og yngri væru ekki send til baka ef þau hefðu engan til að sinna sér.

Sara Edvardson Ehrnborg, kennari sem vinnur með flóttafólki í sjálfboðavinnu, segir áhyggjur ungmennanna af því að verða hafnað fara sívaxandi. Þá séu þau einmana og skorti ástúð.

„Þau eru ekki hamingjusöm á heimilunum. Þetta eru börn sem þafnast þess að einhver sýni þeim ást,“ segir hún. „Við erum afar áhyggjufull og við viljum að sænska ríkisstjórnin grípi til aðgerða.“

Um 2.100 barnungir hælisleitendur frá Afganistan fengu hæli í Svíþjóð á síðasta ári. 600 var hafnað. Umræddir einstaklingar komu allir til landsins einir, þ.e. ekki í fylgd með fullorðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert