Hyggjast gera kröfu í eignir ESB

AFP

Bresk stjórnvöld hafa í hyggju að setja fram fjárkröfu í eignir Evrópusambandsins samhliða útgöngu Bretlands úr sambandinu. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Krafan er byggð á því að með veru sinni í Evrópusambandinu í rúma fjóra áratugi og greiðslum til sambandsins hafi Bretar eignast hlutdeild í eignum þess.

Fram kemur í fréttinni að talið sé að Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í fyrirhuguðum viðræðum við Bretland um útgöngu landsins úr sambandinu, sé að undirbúa lista yfir skuldbindingar sem Bretar hafi gengist undir upp á allt að 51 milljarð punda sem gerð verði krafa um að ríkissjóður Bretlands greiði eftir að af útöngunni hefur orðið.

Hugveitan Bruegel, sem starfar í Brussel, telur að hlutdeild Bretlands í eignum Evrópusambandsins kunni að vera allt að 130 milljarða punda virði. Bresk stjórnvöld vonast til þess að geta að minnsta kosti fengið greidda 17 milljarða punda fyrir eignarhluta landsins.

Haft er eftir breska þingmanninum Desmond Swayne að þegar sambandsslit yrðu væru eignaskipti ljóslega eitthvað sem þyrfti að ræða. Það er hver fengi húsið eins og hann orðar það. Líklega yrðu umræður um það bæði langar og erfiðar. Það kæmi í ljós hvernig þær færu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert