Vænisjúkur leiðtogi ruddi bróður úr vegi

Bræðurnir voru ekki samrýmdir (f.v.) Kim Jong-Un og Kim Jong-Nam.
Bræðurnir voru ekki samrýmdir (f.v.) Kim Jong-Un og Kim Jong-Nam. AFP

Öryggi Kims Jong-Nam var langt frá því tryggt þó að hann byggi síðustu árin í Macau og nyti ákveðinnar verndar kínverskra stjórnvalda. Áhrif og völd hálfbróðurins Kims Jong-Un teygja sig víða. Stjórn hans í Norður-Kóreu taldi sér ógnað af Kim Jong-Nam sem þættist réttmætur arftaki valdasprotans í hinu einangraða Asíuríki.

Vinir hans í Macau segja að hann hafi notið þar ákveðins frelsis, farið út að borða og drukkið með félögum sínum þrátt fyrir hættuna á því að bróðir hans myndi senda einhverja til að taka hann af lífi. Suðurkóreska leyniþjónustan telur að Kim Jong-Un beri ábyrgð á dauða hans, hafi í raun gefið veiðileyfi á hann.

Í þessari viku var þessi skipun hans uppfyllt er tvær konur eitruðu fyrir hann á flugvelli í Malasíu.

Með litla öryggisgæslu

Þeir sem þekktu Kim eldri segja að hann hafi ekki haft mikla öryggisgæslu og hafi ekki verið vænisjúkur.

„Hann var einfaldlega ekki þannig,“ segir einn vinur hans í samtali við South China Morning Post. Vinurinn segir að Kim hafi ekki alltaf haft lífverði með í för er hann var á ferðalögum. Sömu sögu sé að segja um veru hans í Macau þar sem hann bjó síðustu árin. „Líf hans var rólegt. Honum fannst hann njóta verndar Kína.

Vinir Kims segja hann hafa verið glaðværan og átt auðvelt með að kynnast fólki. Þá hafi hann tekið þátt í góðgerðarstarfi. 

Kim Jong-Nam var menntaður í Evrópu. Hann flakkaði oft á milli Parísar, Kína og Macau. 

Lík hans er nú í líkhúsi íKuala Lumpur. Malasíska lögreglan segir að það verði ekki afhent fyrr en einhver ættingi hans gefi lífsýni til að staðfesta skyldleika og svo hægt verði að bera kennsl á líkið með fullri vissu.

Fyrrverandi leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Il ásamt elsta syni sínum, Kim …
Fyrrverandi leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Il ásamt elsta syni sínum, Kim Jong-Nam. Skjáskot/CNN

Kim var fyrsti sonur Kim Jong-Il, fyrrverandi einræðisherra Norður-Kóreu. Um tíma var litið svo á að hann myndi taka við stjórnartaumunum af föður sínum. Var undirbúningur fyrir slík valdaskipti hafinn.

 En svo kom eitthvað upp á í þeirra samskiptum sem varð til þess að faðirinn afneitaði honum. Talið er að tilraun Kims til að fara til Japans á fölsuðum ferðaskilríkjum árið 2001 geti verið ástæðan. Kim sagðist sjálfur hafa viljað heimsækja Disneyland. Sú ferð reyndist honum þó dýrkeypt. 

Í kjölfarið fór hann í útlegð og gagnrýndi stjórnvöld í Norður-Kóreu opinberlega fyrir einangrunarstefnu sína. Í bók eftir japanskan blaðamann, sem kom út árið 2012, er haft eftir Kim að stjórn landsins myndi falla ef engar umbætur yrðu gerðar í landinu.

Þá hafði hann sagt erfðaröð að valdastólnum „grín“ og að bróðir hans Kim Jong-Un yrði ekki langlífur í leiðtogahlutverkinu.

Kim Jong-Un steig skyndilega fram

Kim yngri er þriðji úr sinni fjölskyldu til að erfa stöðuna, á eftir föður sínum, King Jong-Il sem tók við því af föður sínum, Kim Il-Sung árið 1994.

Mörgum þótti því skjóta skökku við er Kim Jong-Un, sonur þriðju eiginkonu Jongs-Il, steig allt í einu, flestum að óvörum, fram á sjónarsviðið sem arftaki er faðir hans lést árið 2011. 

Verði það staðfest að Kim yngri hafi ráðið hálfbróður sinn af dögum verður litið á það sem mikla vænisýki af hans hálfu, að mati suðurkóresku leyniþjónustunnar. 

Hingað til hefur Kína verið helsti, og í raun eini, bandamaður Norður-Kóreu. Það samband hefur þó versnað eftir tilraunir Norður-Kóreu með kjarnavopn. 

Kínverjar litu svo á að Kim Jong-Nam væri mun hæfari leiðtogi heldur en litli bróðir hans. Þessi skoðun kínverskra yfirvalda er líkleg til að hafa fallið í grýttan jarðveg hjá Kim yngri. Svo grýttan að hann vildi hann feigan.

„Jong-Nam gagnrýndi Norður-Kóreu opinberlega en að auki var hann eldri, fyrsti sonurinn og studdi Kína,“ segir Hong Hyun-Ik, fræðimaður hjá Sejong-stofnuninni í Seoul. „Þetta eru nægar ástæður til að Jong-Un vildi drepa hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert