Draugar fortíðar ásækja Battleship-eyju

Battleship-eyja rís úr hafi.
Battleship-eyja rís úr hafi. AFP

Útlínur Battleship-eyjar ber við himininn og minna á hina yfirgefnu borg sem eitt sinn var sú þéttbýlasta í heimi. Þúsundir manna, kvenna og barna bjuggu og unnu á eyjunni, við neðjansjávarkolavinnslu sem knúði hraða iðnvæðingu Japan frá seinni hluta 19. aldar.

En er árin liðu dró úr efnahagslegum ávinningi vinnslunnar og árið 1974 yfirgaf Mitsubishi Mining eyjuna, sem liggur rétt fyrir utan Nagasaki. Í Japan er eyjan kölluð Gunkanjima en flestir þekkja borgarrústirnar sem fylgsni óþokkans í Bond-myndinni Skyfall.

Árið 2015 var eyjan sett á heimsminjaskrá UNESCO.

En það eru ekki allir jafnánægðir með nýfundna frægð og athygli. Eyjan, sem er vinsæll ferðamannastaður og líkist herskipi að lögun, geymir nefnilega ljótt leyndarmál; hér unnu eitt sinn kínverskir og kóreskir þrælar nýlenduveldisins Japan.

Borgin er að hruni komin en hún komst í fréttirnar …
Borgin er að hruni komin en hún komst í fréttirnar þegar hún var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 2015. Þá var hún fylgsni óþokkans í Bond-myndinni Skyfall. AFP

„Gunkanjima er illur staður,“ segir Zhang Shan, varaforseti Chinese Forced Labour Association. „[Ákvörðun UNESCO] var vanhelgun og áfall fyrir fórnarlömbin.“

Gunkanjima vekur aðrar tilfinningar hjá fólki á borð við Minoru Kinoshita, 63 ára, sem fæddist á eyjunni. „Ég kem hingað oft og í hvert sinn sé ég að heimabærinn minn er að grotna niður,“ segir hann.

Fram að 13 ára aldri var eyjan, sem spannar 0,06 ferkílómetra, eina heimilið sem Kinoshita þekkti. Þar var að finna skóla, sundlaug, markað, sjúkrahús, fangelsi og þakgarða.

Faðir Kinoshita var sýningarstjóri við kvikmyndahús borgarinnar en minningar Kinoshita eru af ævintýralandi; þéttu völundarhúsi bygginga sem var tilvalinn vettvangur fyrir feluleik. Heimilin voru fjögurra manna herbergi og þegar spáð var vondu veðri neyddust íbúar til að negla fyrir gluggana.

Minoru Kinoshita, 63 ára, fæddist á eyjunni og bjó þar …
Minoru Kinoshita, 63 ára, fæddist á eyjunni og bjó þar til 13 ára aldurs. AFP

Íbúafjöldi Battleship-eyjar náði hámarki í kringum 1960, þegar hann var nærri 5.300. Þetta var úthafsútgáfa hins evrópska námabæjar og líkt og í öðrum námum var vinnuumhverfið allt annað en þægilegt.

Námurnar voru starfræktar allan sólahringinn og unnið á átta tíma vöktum. Allt að 1.000 metrum fyrir neðan sjávarmál strituðu menn við þröngar og kæfandi aðstæður og gerðu þarfir sínar í holur sem þeir grófu sjálfir.

„Loftið var mettað raka. Það var klístrað og kolarykið blandaðist svitanum þannig að við vorum svartir frá toppi til táar,“ segir Tomoji Kobata, 79 ára, sem starfaði í námunum í eitt og hálft ár á 7. áratugnum.

Fleiri en 200 létust í slysum. Aðrir létust af völdum kísillunga.

Tomoji Kobata, 79 ára, vann í neðansjávarnámunum í eitt og …
Tomoji Kobata, 79 ára, vann í neðansjávarnámunum í eitt og hálft ár. AFP

Sumir voru ekki þarna af fúsum og frjálsum vilja.

Japan hertók Kóreuskaga og hluta Kína á fyrri hluta 20. aldar og hneppti þegna landanna í þrældóm á árunum fram að seinni heimsstyrjöldinni.

Að sögn Zhang mótmæltu hin kínversku samtök ákvörðun UNESCO á sínum tíma en fengu engin svör. Erfitt er að meta hversu margir voru látnir vinna nauðungarvinnu hjá Japönum en Mitsubishi Materials hefur heitið því að koma upp minnisvarða við sumar náma sinna um að heiðra minningu þeirra.

Fyrirtækið hefur þegar greitt níu Kínverjum um 1,6 milljónir hverjum í bætur og á í viðræðum við fleiri.

Árið 2015 sögðu japönsk stjórnvöld að þau myndu grípa til aðgerða til að tryggja að ferðamenn fengju upplýsingar um að margir Kóreubúar og aðrir hefðu verið fluttir til eyjarinnar og neyddir til að vinna „við erfiðar aðstæður“.

Talað er um þá erfiðleika sem steðjuðu að viðkomandi í ferðamannabæklingum og leiðsögumenn minna ferðamenn á að það voru ekki bara Japanar sem strituðu og létust í námunum.

Í dag er eyjan vinsæll ferðamannastaður en menn vilja ekki …
Í dag er eyjan vinsæll ferðamannastaður en menn vilja ekki að það gleymist að þar störfuðu Kínverjar og Kóreubúar í nauðungarvinnu fyrir Japani. AFP

Kinoshita vonast til þess að staða eyjarinnar á heimsminjaskrá UNESCO muni verða til þess að fjármunum verði varið í að endurreisa borgina og halda á lofti minningum hans frá 1966, þegar hann fluttist á brott með fjölskyldu sinni.

„Þegar við fórum um borð í bátinn til að fara, sá ég vini mína veifa borða með nafninu mínu,“ segir hann. „Þar voru líka skilaboð: Gleymdu aldrei eyjunni okkar!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert