Juppé ætlar ekki í framboð

Alain Juppé, borgarstjóri í Bordeuax og fyrrverandi forsætisráðherra, ætlar ekki í framboð í stað François Fillon, frambjóðanda repúblikana í komandi forsetakosningum. Fillon berst nú fyrir pólitísku lífi sínu vegna hneykslismáls sem kom upp á yfirborðið fljótlega eftir að ljóst var að hann yrði væntanlega kjörinn næstu forseti Frakklands. Staða hans hefur legið niður á við í síðustu skoðanakönnunum en um áramótin var talið fullvíst að hann yrði kjörinn forseti í vor.

Samkvæmt skoðanakönnunum er það Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi Þjóðfylkingarinnar, sem leiðir í fyrri umferð kosninganna. 

Borgarstjórinn í Bordeaux, Alain Juppé.
Borgarstjórinn í Bordeaux, Alain Juppé. AFP

Á blaðamannafundi í Bordeaux í morgun sagði Juppé að kosningarnar færu fram við snúnar aðstæður en segir, í síðasta skiptið, að hann ætli sér ekki í framboð. 

Einn þeirra sem herjar mjög á Fillon um að draga framboð sitt til  baka er fyrrverandi forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, en hann varð að lúta haldi fyrir Fillon í fyrri umferð forvals repúblikana. Sarkozy tapaði síðustu forsetakosningum fyrir sósíalistanum François Hollande sem ekki sækist eftir endurkjöri nú. Boðað hefur verið til fundar hjá Les Républicains í dag þar sem farið verður yfir stöðuna í kosningabaráttunni.

Sarkozy, sem skipaði Fillon í embætti forsætisráðherra þegar hann var forseti, hvatti Fillon og Juppé til þess að hittast og ræða hvaða möguleikar séu í stöðunni en Juppé hefur ítrekað lýst því yfir að hann ætli ekki í framboð. Hann tapaði fyrir Fillon í seinni umferð forvals repúblikana í nóvember. 

En þrátt fyrir andstreymi ætlar Fillon ekki að gefast upp og segir að það geti enginn komið í veg fyrir framboð hans. 

Tugir þúsunda mættu á kosningafund Fillons í gær.
Tugir þúsunda mættu á kosningafund Fillons í gær. AFP

Skoðanakannanir benda til þess að Le Pen fái flest atkvæði í fyrri umferðinni 23. apríl en í seinni umferðinni muni miðjumaðurinn Emmanuel Macron hafa betur. Sérfræðingar vara hins vegar við því að dæmin sýni og sanni að allt geti gerst. Til að mynda niðurstaða Brexit þvert á skoðanakannanir og kjör Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna.

Gerir allt til að koma í veg fyrir kjör Le Pen

Hollande varar við því í viðtali við sex evrópsk dagblöð í dag að hættan á að Le Pen verði næsti forseti Frakklands sé til staðar en hann muni gert allt til þess að koma í veg fyrir að hún verði næsti forseti. Hollande nýtur sáralítils stuðnings meðal kjósenda og er það skýringin á því hvers vegna hann býður sig ekki fram til endurkjörs.

„Öfgahægri hefur ekki notið svo mikils stuðnings í skoðanakönnum í meira en 30 ár en Frakkland mun ekki gefa eftir,“ segir Hollande. Hann segir að Frakkar geri sér grein fyrir því að úrslit kosninganna 23. apríl og 7. maí skeri úr um ekki aðeins framtíð Frakklands heldur framtíð Evrópuverkefnisins sjálfs. 

Le Pen hefur heitið því að afnema evruna sem gjaldmiðil Frakklands ef hún verður kjörin og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Frakklands í Evrópusambandinu.

Hollande segir að það sé sitt síðasta skylduverkefni í embætti að gera hvað sem þarf að gera til þess að tryggja að áætlanir sem þessar verði til þess að Frakkland yfirgefi ESB.

Þegar Fillon hóf kosningabaráttuna virtist leiðin bein og björt í Élysée-höll. En eftir að ádeiluritið Le Canard enchaîné birti upplýsingar um það í lok janúar að eiginkona Fillon, Penelope og tvö börn þeirra hafi þegið tæplega 900 þúsund evrur í laun fyrir störf sem aldrei voru unnin fyrir franska þingið, hrundi fylgið af honum og er sótt að honum úr öllum áttum, bæði úr eigin flokki og víðar. 

Fillon hét því í fyrstu að hætta við framboð ef hann yrði ákærður en hann hefur nú dregið það loforð til baka. Hann segist vera fórnarlamb rannsóknar sem byggi á pólitík og hlutdrægni fjölmiðla. Húsleit hefur verið gerð á skrifstofum hans og heimili og í næstu viku er honum gert að mæta í skýrslutöku hjá saksóknara.

Penelope Fillon segir í viðtali við Le Journal du Dimanche í gær að hún hafi unnið margvísleg verkefni fyrir eiginmann sinn á löngum ferli hans í stjórnmálum. Verkefni sem hafi þurft að vinna og ef hún hefði ekki gert það þá hefði einhver annar gert það. Eins hvetur hún hann til þess að gefast ekki upp þrátt fyrir að ákvörðunin sé alltaf hans.

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert