Bandarísk gildi fótum troðin

AFP

Amnesty International gagnrýnir harðlega ákvörðun bandarískra stjórnvalda um að banna flóttamönnum að koma til landsins næstu fjóra mánuði og banna ferðalög ríkisborgara sex ríkja þangað. Segir framkvæmdastjóri mannúðarsamtakanna að með þessu séu bandarísk gildi fótum troðin.

AFP

Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International, segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sé einbeittur í því að loka landinu fyrir þeim sem eru að flýja hryðjuverkin sem hann þykist vera að berjast gegn og að þessa tímabils verði síðar minnst sem einum svartasta kaflanum í sögu Bandaríkjanna. Það að þessar aðgerðir séu í nafni þjóðaröryggis standist engan veginn. 

AFP

Með þessu verði vonir þúsunda flóttamanna sem vonir stóðu til að gætu hafið nýtt líf í Bandaríkjunum að engu og gildi sem Bandaríkin hafa lengi staðið fyrir gerð að engu.

Með tilskipuninni að banna ríkisborgurum sex ríkja þar sem flestir íbúanna eru múslimar byggir á hatri á múslimum og ýtir undir slíkt hatur. „Þetta eru fjölskyldur sem björguðust út úr rústum Aleppo eða flúðu sprengingar og hungur í Jemen. Þetta er fólk sem er að flýja ógnir og verðskuldar vernd,“ segir Shetty á vef Amnesty International. 

Íslandsdeild Amnesty International stendur nú fyrir undirskriftasöfnun á Netákalli deildarinnar þar sem skorað er á forseta Bandaríkjanna að hætta að misnota vald sitt, standa við skuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart viðkvæmasta hópi flóttamanna og binda enda á ferðabann sem mismunar fólki á grundvelli þjóðernis og trúar.

Netákall til Trump

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert