Lávarðadeildin vill viðauka við Brexit

Lávarðadeildin er hörð á því að þingið eigi að hafa …
Lávarðadeildin er hörð á því að þingið eigi að hafa síðasta orðið varðandi útgöngu Breta úr ESB. AFP

Lávarðadeild breska þingsins hafnaði í dag aftur beiðni Theresu May forsætisráðherra um að hefta ekki viðræður ríkisstjórnarinnar um útgönguna úr ESB. Samþykkti lávarðadeildin í dag í annað sinn að þingið yrði að fá aukið vald til að hafna útgöngusamningi stjórnarinnar.

366 þingmenn sögðu já við því að setja viðauka við lagafrumvarpið sem heimilar May að hefja útgönguferlið, á móti 268 sem sögðu nei við tillögunni. May hyggst hefja útgönguferlið síðar í þessum mánuði.

Frumvarpsbreytingin felur nú í sér að breska þingið verður að samþykkja útgöngusamninginn áður en hann er tekin til umræðu á Evrópuþinginu. Skili viðræðurnar síðan engum árangri þá verður þingið sömuleiðis að veita sitt samþykki ákveði Bretar að yfirgefa sambandið án þess að nokkur samningur hafi náðst.

David Davis, sem fer með málefni Brexit í ríkisstjórninni, sagði stjórnina munu leitast við að fá breytinguna á lagafrumvarpinu fellda úr gildi þegar neðri deildin tekur frumvarpið til umræðu á þinginu. May hefur stuðning naums meirihluta þingmanna í neðri deildinni.

„Það er ljóst að sumir í lávarðadeildinni leitast við að hindra ferlið og það er ætlan þessarar stjórnar að sjá til þess að það gerist ekki,“ sagði í yfirlýsingu frá Davis.

Viðaukin mun engu að síður, að sögn Reuters-fréttastofunnar, auka á erfiðleika May við að koma frumvarpinu í gegn þar sem hluti þingmanna Íhaldsflokksins hefur hótað að styðja viðaukann. Slíkur klofningur mun grafa undan valdi May á sama tíma og hún þarf að takast á við kröfur skoska þjóðarflokksins um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert