Neanderdalsmenn notuðu mikið af verkjalyfjum

Svona gæti neanderdalsmaður hafa litið út. Nýjustu rannsóknir benda til …
Svona gæti neanderdalsmaður hafa litið út. Nýjustu rannsóknir benda til að hann hafi vitað mun meira um lækningajurtir en áður hefur verið talið. Morgunblaðið

Neanderdalsmaðurinn notaði verkjalyf í miklum mæli og mögulega pensillín, samkvæmt nýrri rannsókn á tönnum þessa forna frænda nútímamannsins. Rannsóknin er birt í nýjast hefti vísindatímaritsins Nature.

Þegar neanderdalsmenn veiktust tuggðu þeir asparbörk, sem inniheldur efni í ætt við verkjalyfið aspirín. Vísindamennirnir telja neanderdalsmenn einnig mögulega hafa notað pensillín árþúsundum áður en sýklalyf voru fundin upp.

Vísbendingar um þetta er að finna í rannsóknum á erfðaefni sem tekin voru úr tannsteini neanderdalsmanna sem voru uppi í miðhluta Evrópu fyrir um 40.000 árum.

Veraldarvanari en áður var talið

Örverur og matarleifar sem festust í tönnunum veita vísindamönnunum upplýsingar um tegundina, sem er náskyld nútímamanninum, og lífshætti hennar.

„Hegðun þeirra og mataræði bendir til þess að þeir hafi verið veraldarvanir og raunar mun líkari okkur á margan hátt,“ hefur fréttavefur BBC eftir prófessor Alan Cooper, sem fer fyrir Adelaide-miðstöðinni í rannsóknum á fornu erfðaefni.

„Við erum hér með mann sem var að gefa sjálfum sér verkjalyf, annaðhvort vegna tannskemmdar, sem var slæm, eða vegna vondra sýkla í meltingarfærum sem var einnig slæmt. Hvort sem um var að ræða leið honum ekki vel,“ sagði Cooper. „Þannig að hann var að bryðja asprín og svo höfum við fundið pensillín-leifar í honum.“

Leifar af kýli var að finna á kjálkabeini mannsins og hafa verið borin kennsl á magabakteríuna í gegnum rannsókn á erfðaefninu.

Höfðu góða þekkingu á lækningajurtum

Svo virðist sem neanderdalsmenn hafi haft góða þekkingu á lækningajurtum og hvernig hægt væri að nota þær til að draga úr tannverk eða magapínu. Þeir kunna einnig að hafa notað sýklalyf löngu áður en nútímamaðurinn uppgötvaði þau. „Notkun sýklalyfja kæmi verulega á óvart þar sem þetta er rúmlega 40.000 árum áður en við þróuðum pensillín,“ sagði Cooper.

„Þessar niðurstöður eru svo sannarlega í mótsögn við þá einföldu mynd sem almenningur hefur af þessum forna ættingja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert