Var fjölskyldan myrt fyrir gull?

Lögregla leitar sönnunargagna í nágrenni heimilis Caouissin í Pont-de-Buis-lès-Quimerch. Fleiri …
Lögregla leitar sönnunargagna í nágrenni heimilis Caouissin í Pont-de-Buis-lès-Quimerch. Fleiri líkamshlutar fundust í dag. AFP

Lögreglan sem rannsakar morðið á Troadec-fjölskyldunni frönsku, sem hvarf spor­laust 16. fe­brú­ar, varar við fullyrðingum um að deilur um gullfund sé kveikjan að morðunum á þeim Pascal og Brigitte Troadec og börnum þeirra tveimur.

AFP-fréttastofan segir að ekki séu enn neinar sannanir sem styðji þær fullyrðingar Hubert Caouissins, mágs fjölskylduföðurins. Caouissin, sem hefur játað á sig morðin, og móðir Troadecs segja Pascal Troadec hafa stolið gulli sem faðir hans fann. Segir mágurinn Troadec þar með hafa „rænt“ Lydie systur sína um sinn réttmæta hlut.

„Þetta eru bara fullyrðingar eins og er,“ hefur fréttastofan eftir heimildamanni innan rannsóknarinnar.

Gullið ránsfengur úr síðari heimsstyrjöldinni 

Móðir Pascal Troadec sagði í viðtali við franska dagblaðið Le Parisien að eiginmaður sinn, sem nú er látinn, hefði fundið felustað með gullmyntum og gullstöngum í íbúð í norðvesturhluta Brest árið 2006.

Sagði hún hann hafa tekið gullið, sem „mögulega hefði verið stolið frá franska seðlabankanum í síðari heimsstyrjöldinni“ og síðan falið það í bílskúr þeirra.

Það var síðan eftir lát hans árið 2009 sem hún segir Troadec hafa tekið gullið á meðan hún dvaldi á sjúkrahúsi.

Troadec á síðan að hafa sagt fjölskyldunni að hann hefði notað gullið til fjárfestinga í Mónakó og Andorra og á hann að hafa hæðst að þeim og sagt þau „ekki geta snert það“, samkvæmt frásögn móðurinnar.

Nokkru síðar hafi þau Troadec og kona hans farið að láta bera á lúxuslíferni sínu, m.a. með póstkortum frá ferðum sínum erlendis.

Segja söguna hugarburð Caouissin

Caouissin, maki Lydie, segir þetta allt hafa reynst sér um megn og að reiði hans vegna gullsins hafi leitt til þess að hann hafi myrt þau Pascal og Brigitte og börn þeirra Charlotte og Sebastien.

Lögfræðingur fjölskyldu Brigitte, Cecile de Oliveira, segir söguna um gullið hins vegar bara vera hugarburð Caouissin, sem sé búinn að ofsækja fjölskylduna vegna málsins allt frá því 2014.

„Pascal Troadec kvartaði við lögreglu vegna rangra og ítrekaðra ásakana vegna þessara sögu um gullstangirnar sem er bara hugarburður Hubert Caouissin,“ sagði hún í samtali við AFP.

Móðir Caouissin tók í sama streng og sagði söguna um gullfjársjóðinn vera bull. Þá hafa líka litlar sannanir um lúxuslíf Troadec-fjölskyldunnar litið dagsins ljós til þessa.

Saksóknari Nantes, Pierre Sennes, sagði fjölmiðlum fyrr í þessari viku að Troadec hefði haft góðar tekjur við auglýsingaskiltagerð og að þau hjón hefðu ekki verið skuldug.

Líkamshlutar og þýfi finnast á landi Caouissin

Dularfullt hvarf Troadec-fjölskyldunnar hefur vakið mikla athygli í Frakklandi, ekki hvað síst eftir að lögregla fann ummerki um að reynt hefði verið að hreinsa upp blóð í húsi þeirra í borginni Nantes.

Caouissin segist hafa sundurlimað lík fjölskyldunnar eftir morðin á þeim og að hann hafi brennt suma líkamshlutana og dreift öðrum víðs vegar um bújörð sína í Brittany.

Rannsakendur greindu frá því í dag að fleiri líkamshlutar hefðu fundist á jörð hans, sem og skartgripir og tölvur sem teknar voru af heimili fjölskyldunnar.

Þau Caouissin og Lydie Troadec voru yfirheyrð í tæpan sólarhring fyrst eftir hvarf fjölskyldunnar og sagði Caouissin rannsakendum þá að þeim hefði orðið sundurorða vegna deilna um arf.

Grunur lögreglu í upphafi beindist þó að syninum Sebastien Troadec, sem átti við geðræn vandamál að etja.

Troadec-fjölskyldan, Pascal, Brigitte, Sébastien og Charlotte. Mágur fjölskylduföðurins viðurkennir að …
Troadec-fjölskyldan, Pascal, Brigitte, Sébastien og Charlotte. Mágur fjölskylduföðurins viðurkennir að hafa myrt þau. AFP
Hús Troadec-fjölskyldunnar hefur verið innsiglað af lögreglu. Ekkert bólar hins …
Hús Troadec-fjölskyldunnar hefur verið innsiglað af lögreglu. Ekkert bólar hins vegar enn á gullinu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert