Hótar Hollendingum hefndum

Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands, hótaði Hollendingum því að þeir yrðu látnir gjalda fyrir að hafa vísað tyrkneskum ráðherra úr landi og að hafa synjað öðrum ráðherra um lendingarleyfi. Dönsk stjórnvöld hafa nú óskað eftir því að Erdoğan fresti fyrirhugaðri heimsókn til Danmerkur en til stóð að hann myndi koma þangað síðar í mánuðinum.

Deilur Hollendinga og Tyrkja eru þær alvarlegustu sem upp hafa komið eftir að tyrknesk yfirvöld reyndu að fá að standa fyrir útifundum í nokkrum borgum ríka Evrópusambandsins. Meðal annars var þeim neitað um að halda slíka fundi í Þýskalandi af nokkrum borgarstjórum af ótta við óeirðir.

Tyrkir ganga að kjörborðinu 16. apríl um hvort veita eigi forseta landsins enn meiri völd. 

„Hæ Holland! Ef þið eruð að fórna tengslum Tyrklands og Hollands vegna kosninganna á miðvikudag þá fáið þið að gjalda þess,“ sagði Erdoğan  við athöfn í Istanbul í dag, sýnilega reiður. Vísar hann þar til þingkosninga í Hollandi á miðvikudag. „Þeir munu komast að því hvað háttvísi er,“ bætti hann við og að því sem hafi gerst verði ekki látið ósvarað.

Fjölskyldumálaráðherra Tyrklands, Fatma Betul Sayan Kaya, var vísað úr landi í Hollandi í gær eftir að hafa komið akandi frá Þýskalandi til Rotterdam.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert