Sjakalinn fyrir rétt í París

Hryðjuverkamaðurinn Ramirez Sanchez öðru nafni Carlos - Sjakalinn.
Hryðjuverkamaðurinn Ramirez Sanchez öðru nafni Carlos - Sjakalinn. AFP

Réttarhöld yfir Carlos, sem einnig er þekktur undir heitinu Sjakalinn, hefjast í París á morgun. Í þetta skiptið er hann sakaður um að bera ábyrgð á sprengjutilræði í verslun í borginni fyrir meira en 40 árum síðan. Hann afplánar lífstíðardóm í Frakklandi.

Carlos, sem er 67 ára og er frá Venesúela, heitir réttu nafni Ilyich Ramirez Sanchez. Hann lýsir sér sjálfur sem fag-byltingarmanni en foringi í palestínsku frelsissamtökunum PFLP hóf að nefna hann Carlos þegar hann gekk til liðs við samtökin árið 1970 og hann varð í kjölfarið eftirlýstasti hryðjuverkamaður heimsins. Fjölmiðlar tóku síðar upp á því að kalla hann Sjakalann í höfuðið á persónu í skáldsögu Frederick Forsyth, Dagur Sjakalans.

Carlos var handtekinn í höfuðborg Súdan, Khartoum, árið 1994 af frönskum sérsveitarmönnum. Fyrri lífstíðardóminn hlaut Carlos fyrir morð á tveimur frönskum lögregluþjónum og einum óbreyttum borgara árið 1975 og þann síðari fyrir fjögur sprengjutilræði í París og Marseille á árunum 1982 og 1983. Alls létust 11 manns og tæplega 150 særðust í árásunum.

Réttarhöldin á morgun snúast um sprengjutilræði í lyfjaversluninni Publicis í Saint-Germain-des-Pres hverfinu í París. Handsprengju var hent inn í verslunina síðdegis 15. september 1974. Tveir létust og 34 særðust.

Georges Holleaux, er lögmaður tveggja kvenna sem misstu eiginmenn sína í árásinni, segir að þær hafi ásamt fólki sem slasaðist í árásinni, beðið svo lengi eftir tækifæri á að fá Carlos sakfelldan fyrir tilræðið. Þeirra sár muni aldrei gróa.

Verjandi Carlosar, Isabelle Coutant-Peyre, segir réttarhöldin aftur á móti tíma- og peningaeyðslu. Svo langt sé um liðið frá tilræðinu auk þess sem hann afpláni lífstíðardóma.  Isabelle Coutant-Peyre er eiginkona Carlosar en hún giftist honum eftir að hún hóf störf sem verjandi hans í ágúst árið 2001. 

Coutant-Peyre er fjórum árum yngri en Sjakalinn. „Hjónabandið er táknrænt,“ sagði hún þá. „Við vildum lýsa því yfir að við elskum hvort annað það sem við eigum eftir ólifað. Við urðum ástfangin, eins og milljónir annarra í heiminum. Svo einfalt er það.“ 

Coutant-Peyre var alin upp hjá vellauðugum föður, viðskiptajöfri, eftir að foreldrar hennar skildu þegar stúlkan var níu ára. Hún nam í kaþólskum heimavistarskóla áður en leiðin lá í laganám í París. Hjónin hafa vitanlega aldrei búið saman, og gera aldrei. 

Al Watan Al-Arabi tímaritið birti viðtal árið 1979 þar sem Carlos er sagður játa að hafa hent handsprengjunni en hann hefur síðan þá neitað öllum fjölmiðlum um viðtal.

Saksóknarar segja að árásin tengist gíslatöku í hollensku borginni Haag tveimur dögum fyrr, 13. september 1974. Þar var skæruliðahópur, Japanski Rauði herinn, á ferð en það voru skæruliðasamtök kommúnista með sterk tengsl við palestínsku frelsissamtökunum PFLP sem Carlos starfaði með. Með gíslatökunni vildu þau fá lausan félaga sinn, sem var handtekinn tveimur mánuðum fyrr á Orly flugvellinum í París. 

Farið var að kröfum mannræningjanna og fanginn látinn laus. Hann fór ásamt mannræningjunum til Jemen í kjölfarið.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins árið 2011 var fjallað um Carlos en þar kom fram að Ramírez fæddist í Venesúela 1949. Hann varð mikill marxisti eins og faðir hans, gekk snemma í æskulýðshreyfingu kommúnista í heimalandinu og var sendur til náms í Moskvu seint á áttunda áratugnum.

Árið 1970 fór hann til Beirút í Líbanon og gerðist sjálfboðaliði í palestínsku frelsissamtökunum PFLP. Hann hefur haldið því fram að alla tíð hafi hann verið að berjast fyrir frjálsri Palestínu. Sumir draga það í efa og telja hann einfaldlega kaldrifjaðan morðingja sem hafi gert hvað er fyrir peninga.

Fyrsta eiginkona Carlosar, hin þýska Magdalena Kopp, sendi frá sér bók árið 2007 þar sem hún lýsti árum þeirra saman.

Kopp kynntist Carlosi 1976 þegar hún fór til Suður-Jemen, í hópi vinstrisinnaðra ungmenna, sem vildu berjast fyrir frelsi Palestínu. Þau Carlos urðu ástfangin en Kopp sagði síðar að hún hefði í raun lotið algjörri stjórn hans.

Parið bjó víða í arabaheiminum og í Austur-Evrópu. Carlos átti marga vini sem þurftu á starfskröftum hans að halda. Hann var t.d. bæði í Líbanon og Sýrlandi um tíma og þá er hann sagður hafa búið í Austur-Berlín þar sem leynilögreglan Stasi á að hafa útvegað honum húsnæði og fjölda starfsmanna. Sögur um tengsl hans við önnur kommúnistaríki virðast hafa átt við rök að styðjast. Carlos skildi síðar við Kopp. Hún sneri heim til bæjarins Ulm í Þýskalandi 1995. Hann var handtekinn tveimur árum síðar og hefur verið á bak við lás og slá síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert