320 þúsund fallið á sex árum

Tuskubangsi grafinn í sand í úthverfi Aleppo þar sem harðir …
Tuskubangsi grafinn í sand í úthverfi Aleppo þar sem harðir bardagar geisuðu á síðasta ári með skelfilegum afleiðingum. AFP

Rúmlega 320.000 manns hafa dáið í stríðinu í Sýrlandi frá því að það braust út fyrir sex árum. Það jafngildir tæplega allri íslensku þjóðinni.

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights segjast hafa upplýsingar um 321.358 manns sem hafi fallið í átökum stríðsins. Frá því í desember hafa 9.000 manns týnt lífi en síðan þá var komið á vopnahléi sem þó er mjög viðkvæmt og hefur ítrekað verði brotið. 652 börn hafa dáið í átökunum síðustu tólf mánuði. 

„Það hafa færri fallið en áður síðan vopnahléið tók gildi,“ segir talsmaður mannréttindasamtakanna, Rami Abdel Rahman. „En dauðsföllin halda áfram.“ Um 96 þúsund óbreyttir borgarar hafa fallið í stríðinu í Sýrlandi, þar af um 17.400 börn. Þá hafa 60.900 stjórnarhermenn fallið og 45 þúsund skæruliðar sem tengjast hernum. Einnig hafa 8.000 hermenn erlendra hersveita, sem hliðhollar eru ríkisstjórn landsins, fallið í átökunum.

Þá hafa um 55.000 uppreisnarmenn fallið og svipaður fjöldi vígamanna, m.a. þeirra sem tilheyra Ríki íslams. 

Abdel Rahman segir að mannréttindasamtökin hafi lagt mikið á sig til að reyna að bera kennsl á um 4.000 fórnarlömb stríðsins en án árangurs. „Flestir eru óbreyttir borgarar en um 300 uppreisnarmenn eru í hópnum.“

Hér getur þú lesið greinaflokk mbl.is um upphaf Sýrlandsstríðsins og áhrif þess, m.a. í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert