Sjálfstæði gæti splundrað Skotlandi

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands. AFP

Komi til þess að Skotland verði sjálfstætt ríki yrði það ekki aðeins til þess að breska konungdæmið liðaðist í sundur heldur gæti það einnig orðið þess valdandi að Skotland hlyti sömu örlög. Þetta bendir breski þingmaðurinn Will Quinch á í aðsendri grein sem birtist í dag á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Fyrsti ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon, hefur óskað eftir því að halda þjóðaratkvæði um það hvort landið lýsi yfir sjálfstæði frá breska konungdæminu en til þess þarf samþykki breska þingsins. Síðast fór slík kosning fram árið 2014 þar sem meirihlutinn lagðist gegn sjálfstæði.

Quinch, sem situr á breska þinginu fyrir Íhaldsflokkinn, rifjar upp að í þjóðaratkvæðinu 2014 hafi meirihluti kjósenda í 27 af 32 héruðum stutt áframhaldandi veru í breska konungdæminu. Þar af hafi sjálfstæði verið hafnað með miklum meirihluta í tíu af þessum 27 héruðum. Hann vekur enn fremur athygli á því að af þessum tíu héruðum liggi fjögur að Englandi. Mestur hafi stuðningurinn þó verið á Hjaltlandseyjum.

Þingmaðurinn bendir sömuleiðis á að rökin fyrir nýju þjóðaratkvæði séu einkum þau að með fyrirhugaðri úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu sé verið að draga Skota út úr sambandinu gegn vilja þeirra í ljósi þess að meirihluti skoskra kjósenda hefði í þjóðaratkvæði síðasta sumar kosið að vera áfram innan sambandsins. Meirihluti Breta í heild samþykkti hins vegar úrsögnina.

Quinch spyr hvernig ráðamenn í Skotlandi gætu lagst gegn því að fram færu þjóðaratkvæðagreiðslur í einstökum héruðum landsins um það hvort fólk vildi vera áfram innan breska konungdæmisins ef meirihluti Skota samþykkti sjálfstæði enda væri þá verið að draga héruðin út úr breska konungdæminu gegn vilja þeirra.

Ósk kom fram í aðdraganda þjóðaratkvæðisins 2014 frá íbúum Hjaltlandseyja, Orkneyja og Suðureyja um að fram færi þjóðaratkvæði innan þeirra um aðskilnað frá Skotlandi og áframhaldandi veru í breska konungdæminu. Til slíkrar kosningar kom þó ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert