Segir íhaldsmenn óttaslegna

Nicola Sturgeon og Theresa May.
Nicola Sturgeon og Theresa May.

Skotar munu ganga aftur til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins, að sögn Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands. Sturgeon skaut föstum skotum á Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, á fjöldafundi Skoska þjóðarflokksins og sagði íhaldsmenn óttast mjög niðurstöður annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sturgeon sagði að vilji skoska þingsins yrði að verða ofan á en hún mun krefjast þess að efnt verði til atkvæðagreiðslunnar áður en Bretland gengur úr Evrópusambandinu.

„Eftir að skilmálar Brexit liggja fyrir en á meðan það er enn mögulegt að breyta um stefnu munu íbúar Skotlands hafa val,“ sagði Sturgeon á fundinum í Aberdeen. „Það verður atkvæðagreiðsla um sjálfstæði,“ sagði hún við mikinn fögnuð.

„Það á ekki að draga Skota úr Evrópu af íhaldsstjórn sem stefnir staðráðin á hörmulegt hart Brexit. Þau horfa nú skelfingu lostin fram á niðurstöðu skosku þjóðarinnar.“

Sturgeon kom breskum stjórnvöldum á óvart á mánudag þegar hún krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta lagi snemma árs 2019. May svaraði því til að nú væri ekki tíminn og sagði að öll orka ætti að fara í að landa góðu samkomulagi um Brexit fyrir Bretland í heild.

Fyrsti ráðherrann mun á miðvikudag fara þess á leit við skoska þingið að það veiti sér heimild til að biðja bresku ríkisstjórnina um vilyrði fyrir öðrum kosningum. Skoski þjóðarflokkurinn situr í minnihlutastjórn á skoska þinginu en Græningjar hafa heitið stuðningi í málinu, sem dugir til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert