Bretland eina ríkið sem yfirgefur ESB

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Bretland verður eina ríkið sem segja mun skilið við Evrópusambandið. Þetta fullyrti Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, í viðtali við þýska dagblaðið Bild am Sonntag.

Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta sumar að yfirgefa Evrópusambandið og hafa bresk stjórnvöld unnið að því markmiði síðan.

„Fordæmi Bretlands mun koma öllum í skilningu um að það sé ekki þess virði að yfirgefa [Evrópusambandið],“ sagði Juncker samkvæmt frétt Reuters.

Þess í stað ættu þau ríki sem eftir yrðu í sambandinu eftir að „verða ástfangin á ný og endurstaðfesta hjúskaparheit sín við Evrópusambandið.“ 

Enn fremur sagði forsetinn að ekki væri í boði að vera aðeins að hluta í Evrópusambandinu eða velja bestu bitana. „Innan Evrópusambandsins borðar þú það sem er á borðinu eða þú situr ekki við borðið,“ sagði hann.

Þá spáði Juncker að fleiri ríki ættu eftir að ganga í sambandið í framtíðinni þó það yrði ekki í hans embættistíð en kjörtímabil hans nær til 2019. Ástæðan væri fyrst og fremst sú að umsóknarríki uppfylltu ekki enn skilyrðin fyrir inngöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert