Skjaldbakan er dauð

Hún Omsin er nú dauð eftir að hafa étið hundruð …
Hún Omsin er nú dauð eftir að hafa étið hundruð smápeninga og þurft að gangast undir aðgerð. AFP

Skjaldbaka sem komst í heimsfréttirnar eftir að hún var skorin upp og fimm kíló af smámynt fjarlægð úr maga hennar, er dauð. 915 smápeningar fundust í maga hennar en þeim hafði fólk  hent út í laug hennar í Taílandi, að sögn dýralækna. 

Skjaldbakan var 25 ára og hét Omsin, sem þýðir sparibaukurinn á taílensku. Hún át smápeningana því hún hélt að þeir væru matur.

Omsin átti athvarf í garði austur af Bangkok. Hún var flutt á sjúkrahús fyrir nokkrum dögum þar sem mjög hafði hægt á andardrætti hennar. Hún gekkst svo undir bráðaaðgerð og í kjölfarið fór hún í dá. 

Skjaldbökur eru tákn fyrir langlífi á Taílandi og víðar í Suðaustur-Asíu. Taílendingar hafa því fylgst vel  með ástandi Omsin og óskað þess að hún lifði aðgerðina af. 

Omsin fékk blóðeitrun í kjölfar aðgerðarinnar og var það hennar banamein að sögn dýralækna.

Frétt Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert