Það er snákur í farþegarýminu

Ekki fylgdi sögunni hverrar tegundar snákurinn í flugvélinni var, utan …
Ekki fylgdi sögunni hverrar tegundar snákurinn í flugvélinni var, utan að hann var ekki eitraður eins og snákarni í myndinni forðum. AFP

Snakes on a Plane er heiti þekktrar spennumyndar með bandaríska leikaranum Samuel L. Jackson.  Að heyra flugfreyju um borð í flugvél sem maður er staddur í uppi á háloftunum tilkynna að snákur sé laus um borð er hins vegar spenna sem flestir geta efalítið hugsað sér að vera án.

Sá atburður átti sér engu að síður stað um borð í farþegaflugvél Ravn Alaska flugfélagsins sem var á leið frá bænum Aniak til borgarinnar Anchorage í Alaska. Það var lítill drengur sem var í farþegahópnum sem kom auga á snákinn þegar hann sá glitta í hann sofandi við sjópoka aftast í vélinni. Snákurinn var um einn og hálfur metri að lengd og sem betur fer ekki eitraður eins og snákarnir í myndinni.

Voru farþegar beðnir um að halda ró sinni á meðan að flugfreyja fangaði snákinn

Fréttastofa Sky sjónvarpsstöðvarinnar hefur eftir Önnu McConnaughy, einum farþeganna, að farþegar hafi verið ótrúlega rólegir yfir tilkynningunni.

En eftir viðræður við flugmanninn um það hvernig best væri að fanga snákinn  þá greip ein flugfreyjan um hann miðjan og sleppti honum ofan í svartan ruslapoka. Hann var því næst settur í geymslurýmið yfir sætunum þar sem hann svaf sem fastast það sem eftir lifði ferðar.

Að sögn Sky þá hafði farþegi úr fyrra flugi vélarinnar gleymt gælusnáknum sínum um borð þegar hann yfirgaf vélina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert