Telur son sinn vera saklausan

Ættingjar minnast þeirra sem fórust með farþegaflugvél Germanwings.
Ættingjar minnast þeirra sem fórust með farþegaflugvél Germanwings. AFP

Tveimur árum eftir að farþegarflugvél þýska flugfélagsins Germanwings brotlenti í Ölpunum í Frakklandi hefur faðir flugmannsins Andreas Lubitz boðað til blaðamannafundar í dag þar sem hann hyggst hafna því að sonur hans hafi með vilja brotlent vélinni.

Fram kemur í frétt AFP að bæði skilaboðin og tímasetningin hafi verið gagnrýnd af ættingjum þeirra sem fórust. Þýskir saksóknarar luku rannsókn á málinu í janúar og komust að þeirri niðurstöðu að Lubitz brotlent flugvélinni vísvitandi og hefði verið einn að verki.

Faðir Lubitz, Günter Lubitz, mun mæta á fundinn ásamt blaðamanninum Tim van Beveren sem kynntur er til leiks sem alþjóðlega viðurkenndur flugmálasérfræðingur. Lubitz segir í fréttatilkynningu að þeir séu sannfærðir um sakleysi sonar hans.

Þýskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Lubitz ætli að leggja fram þá kenningu að kolsýringur hafi lekið inn í flugstjórnarklefann með þeim afleiðingum að sonur hans, sem var einn í klefanum þegar flugvélin brotlenti, hafi misst meðvitund.

Lubitz hefur sagt við fjölmiðla að sú mynd sem dregin hafi verið upp af einfara í sjálfsvígshugleiðingum eða kaldrifjuðum morðingja komi ekki heim og saman við þann mann sem hann hafi þekkt. Hann hafi enga ástæðu haft til þess að taka eigið líf.

Hefur hann sakað rannsakendur um alvarleg mistök við störf sín og kallað eftir nýrri rannsókn. Ýmislegt sem blasað hafi við hafi ekki verið skoðað. Að hans mati hugsanlega vegna þess að ekki hafi verið vilji til þess. Saksóknarar hafa vísað þessu á bug.

Rannsakendur á vettvangi í mars 2015.
Rannsakendur á vettvangi í mars 2015. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert