„Ég er Evrópubúi“

AFP

Tugir þúsunda stuðningsmanna Evrópusambandsins komu saman í Lundúnum í dag til þess að fagna 60 ára afmæli sambandsins. Aðeins nokkrir dagar eru í að formleg útganga Breta úr Evrópusambandinu fari af stað.

Að sögn skipuleggjenda tóku um 80.000 manns þátt í göngunni þar sem kallað var eftir því að Bretar myndu halda kyrru fyrir innan Evrópusambandsins en forsætisráðherra landsins, Theresa May, stefnir að því að hefja útgönguferlið á miðvikudaginn.

Mátti sjá hafsjó af bláum fánum Evrópusambandsins í miðbæ Lundúna og hélt fólk á skiltum þar sem á stóð m.a. „Ég er Evrópubúi“ og „Ég er 15 ára – ég vil framtíð mína til baka!“

Mannfjöldinn þagði síðan þegar að gengið var inn á torgið fyrir framan þinghúsið þar sem 4 létu lífið í hryðjuverkaárás fyrr í vikunni. „Hryðjuverk sundra okkur ekki, Brexit gerir það“ stóð á einu skilti. Kallað hafði eftir því að hætt yrði við gönguna vegna voðaverkanna á miðvikudaginn en skipuleggjendur sögðu að þeim yrði ekki ógnað.

Bretar kusu um framtíð landsins innan Evrópusambandsins 23. júní á síðasta ári. 52% kjósenda kusu útgöngu en 48% kusu áframhaldandi aðild.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Yfirvofandi útganga Breta úr ESB hefur valdið mörgum Evrópubúum sem búa í Bretlandi áhyggjum. „Mér var sagt að ég gæti komið mér fyrir hérna, gifst Breta og lifað lífi mínu hér,“ sagði Joan Pons, spænskur hjúkrunarfræðingur sem ræddi við AFP í Lundúnum í dag en hún hefur búið í Bretlandi í 17 ár.

„En í dag er mér sagt að ég sé útlendingur sem eigi að fara aftur þaðan sem ég kom.“

Bret­ar munu virkja 50. grein Lissa­bon-sátt­mál­ans á miðvikudaginn og þar með hefja útgönguferlið úr ESB formlega. May neitaði að taka þátt í hátíðarhöldum samtakanna í Róm í dag í tilefni afmælisins.

Talið er að 80.000 manns hafi komið saman í Lundúnum …
Talið er að 80.000 manns hafi komið saman í Lundúnum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert