Slæmar afleiðingar fyrir Bretland og ESB

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB.
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB. AFP

Evrópusambandið og Bretland munu standa frammi fyrir alvarlegum afleiðingum ef Bretar yfirgefa sambandið án þess að samið verði um það. Þetta segir Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, í grein í viðskiptablaðinu Financial Times.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að Bretar muni yfirgefa Evrópusambandið með eða án samnings um tengslin þar á milli eftir að útgöngunni hefur orðið og að enginn samningur sé betri en slæmur samningur. Hún hyggst virkja 50. grein Lissabon-sáttmála sambandsins á miðvikudaginn og hefja þar með formlega útgönguferlið.

Barnier segir að hann vilji sjá Bretland ganga úr Evrópusambandinu með skipulögðum hætti og segir mögulegt að ná metnaðarfullum fríverslunarsamningi á milli Bretlands og sambandsins eftir útgöngu Breta sem kölluð hefur verið Brexit.

Hins vegar hefði útganga Bretlands án samnings verri afleiðingar fyrir Breta en Evrópusambandið að mati Barniers. Hins vegar væri það báðum aðilum í hag að hægt yrði að semja um útgöngu Breta þannig að það gengi skipulega fyrir sig. 

Þrennt yrði að leysa á fyrstu stigum viðræðna á milli Evrópusambandsins og Bretlands. Staða ríkisborgara ríkja sambandsins í Bretlandi og breskra borgara innan þess, fyrirkomulag landamæragæslu á milli Írlands og Norður-Írlands og fjárhagslegt uppgjör.

Fyrst yrði að semja um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu áður en hægt yrði að semja um fríverslunarsamning. Því fyrr sem tækist að semja um fyrirkomulag útgöngunnar því meiri tíma væri hægt að nota í fríverslunarviðræður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert