Uppreisnarmenn ná flugvellinum við Raqqa

Uppreisnarmenn SDF og Kúrda halda áfram sókn sinni á Raqqa.
Uppreisnarmenn SDF og Kúrda halda áfram sókn sinni á Raqqa. AFP

Sýrlenskir uppreisnarmenn, sem njóta stuðnings Bandaríkjahers, segjast nú hafa náð flugvellinum við borgina Raqqa á Sýrlandi úr höndum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Hernám flugvallarins þykir mikilvægt skref í áttina að því að ná Raqqa, sem hryðjuverkasamtökin hafa útnefnt höfuðborg sína, úr höndum samtakanna.

Fréttavefur BBC hefur eftir Talal Sello, talsmanni uppreisnarsamtakanna SDF að þeir hafi náð Tabqa flugvéllinum úr höndum vígamanna. Uppreisnarmenn Kúrda halda hins vegar áfram sókn sinni að borginni sjálfri.

BBC segir mannréttindasamtök hafa lýst yfir áhyggjum af öryggi þeirra almennu borgara sem enn hafast við á svæðinu. Segja sýrlensku mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights að 89 almennir borgara hafi farist í loftárásum undanfarna viku.

Ríki íslams náði Tabqa flugvellinum frá sýrlenska stjórnarhernum árið 2014 og tók fjölda hermanna stjórnarhersins af lífi í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert