Útlendingar hafi ekki allir sama gildi

Gerard Batten.
Gerard Batten. AFP

Bretland á að geta vísað fólki úr landi ef það „vinnur ekki, borgar aldrei skatta eða er betlarar eða glæpamenn“, segir Evrópuþingmaðurinn Gerard Batten, sem er talsmaður Ukip í þeim málum er varða úrsögn Breta úr Evrópusambandinu.

Batten hefur lýst yfir stuðningi við þá afstöðu forsætisráðherrans Theresu May að gefa ekki fyrirheit um afdrif ríkisborgara annarra Evrópusambandsríkja sem búa í Bretlandi fyrr en ESB-ríkin hafa gert slíkt hið sama.

Margir stjórnmálamenn sem börðust fyrir svokölluðu Brexit, innan Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins, hafa sagt að tryggja eigi rétt ríkisborgara aðildarríkja ESB sem búsettir eru í Bretlandi til að dvelja þar áfram.

Batten segir hins vegar að Bretar eigi að hafa þann rétt að getað neitað sumum um áframhaldandi búsetu.

„Það sem breska ríkisstjórnin ætti að gera er að skrifa hverju einasta hinna 27 ESB-ríkjanna og segja, við munum tryggja rétt ríkisborgara ykkar ef þið tryggið rétt ríkisborgara okkar. Þannig að, til dæmis, í Póllandi eru um 30 þúsund Bretar og það eru um 900.000 Pólverjar hér. Þannig að af hverju skyldu þeir ekki gera það?“ segir Batten.

Bretar verði þó að geta vísað ofangreindum burt.

„Ég tel það vera fávitalega innflytjendalöggjöf sem segir að við tökum við öllum óháð því hvaða gildi þeir hafa eða hafa ekki fyrir landið okkar.“

Sagði hann að flestir Bretar á meginlandinu sinntu sérhæfðum störfum eða væru á ellilífeyri en það sama mætti ekki segja um útlendinga í Bretlandi.

Hann hefði orðið var við „einn þeirra“ stela úr verslun um helgina.

Ítarlega frétt má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert