Dyggðugur sonur eða morðingi?

Yu Huan.
Yu Huan. AFP

Dyggðugur sonur eða harðsvíraður morðingi - mál manns sem myrti skuldheimtumann sem hafði beitt móður hans ofbeldi - hefur vakið mikla athygli í Kína. Áfrýjunardómstóll mun kveða upp dóm í vikunni en sonurinn var dæmdur í lífstíðarfangelsi í undirrétti.

Allt fór á hvolf á kínverskum samfélagsmiðlum þegar Yu Huan, 22 ára, var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa stungið innheimtumann til dauða eftir að sá hafði barið og niðurlægt móður hans. 

Réttarfarið í Kína þykir veikburða og oft spillt þannig að margir brugðust ókvæða við þegar ungi maðurinn var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Telja þeir að viðbrögð hans hafi verið eðlileg þar sem lögreglan hafi ekki gripið inn þrátt fyrir ósk þar um. Aðrir segja að réttarríkið eigi að gilda, lög séu lög, og því eigiYu að afplána lífstíðardóm fyrir morð líkt og lög kveða á um.

Su Yinxia móðir Yu Huan.
Su Yinxia móðir Yu Huan. AFP

Vegna mikillar umræðu meðal almennings hefur sá fátíði atburður gerst að málið er nú til rannsóknar hjá opinberri eftirlitsstofnun og er niðurstöðu hennar beðið með mikilli eftirvæntingu.

 Samkvæmt dómsskjölum fékk móður Yu Huan, Su Yinxia, rúmlega eina milljón júana, 16 milljónir króna, að láni hjá fjármálafyrirtæki vegna framleiðslu á bílavarahlutum. Hún greindi lögreglu frá því hvernig hún hafi greitt inn á lánið jafnt og þétt auk vaxta, alls 1,5 milljón júana. En vegna hárra vaxta hækkaði skuldin stöðugt og vonlaust fyrir hana að greiða lánið upp. 

Lánveitandinn, Wu Xuezhan, sem hefur ítrekað verið handtekinn af lögreglu í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi, sendi hóp handrukkara á fund Su. Komu þeir í verksmiðju hennar í apríl 2015 og höfðu í hótunum við hana og son hennar. Meðal þeirra sem komu á vegum Wu var Du Zhihao.

Haft var samband við lögreglu og nokkru síðar kom lögreglumaður á vettvang. Í stað þess að stöðva illdeilurnar hvatti hann þá til þess að ná samkomulagi um skuldina án þess að beita hnefum. Um leið og lögreglumaðurinn yfirgaf staðinn varð allt vitlaust.

Su segir að innheimtumennirnir hafi beitt hana ofbeldi sem lauk með því að sonur hennar, Yu, dró upp ávaxtahníf og stakk fjóra af mönnum. Þar á meðal Du sem blæddi út. Innheimtumennirnir segja þetta hins vegar rangt og þeir hafi hvorki niðurlægt Su né beitt hana ofbeldi. Yu var í kjölfarið dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Helsta ágreiningsefnið meðal netverja er hvort lagarammi Kína sé svo lélegur að börn verði að grípa inn til þess að verja foreldra sína þar sem lögreglan geri ekki neitt. Spyrja menn sig þeirrar spurningar til hvers lögin séu eiginlega og hvort flestir hefðu ekki gert það sama og Yu - að verja móður sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert