Eins og að lenda undir lest

AFP

Hús leika á reiðiskjálfi og tilfinningin er sú sama og að lenda undir flutningalest, segir einn viðmælanda ástralska sjónvarpsins þegar hann reynir að lýsa óveðrinu á Hayman eyju sem er fyrir utan Queensland í Ástralíu. Skrímslið Debbie herjar nú á íbúa Queensland. 

Ekki hafa borist ítarlegar fréttir af eyðileggingu af völdum fárviðrisins en vindhraðinn nær allt að 75 metrum á sekúndu. Rafmagnslaust er víða, hús hafa eyðilagst og tré rifnað upp með rótum. Ekkert lífsmark sést í strandbæjum Queensland enda fjölmargir íbúar flúnir áður en óveðrið gekk á land með roki og rigningu.

Frá Ayr í norðurhluta Queensland.
Frá Ayr í norðurhluta Queensland. AFP

Eyjar á rifinu Miklatálma, Great Barrier Reef, sem teygir sig meðfram strönd Queensland í Ástralíu og talið er eitt af undrum veraldar, hafa orðið illa úti í óveðrinu en kóralbeltið er afar vinsæll áfangastaður ferðamanna. Heldur hefur dregið úr vindstyrk fellibylsins eftir því sem hann færðist inn í land. 

Að sögn Mark Ryan, stjórnmálamanns í Queensland, hafa tré rifnað upp með rótum á Airlie Beach og þar hafa húsþök skemmst en ekki er vitað um manntjón af völdum óveðursins. Vitað er um að einn maður hafi slasast alvarlega þegar veggur húss hrundi yfir hann.

Að sögn lögreglustjóra Queensland, Ian Stewart, er ljóst að margar tilkynningar um tjón eiga eftir að berast og hann óttist að margir eigi eftir að slasast í óveðrinu. Hann vonist samt til þess að ekkert manntjón verði. 

Veðurstofa Ástralíu spáir allt að 500 mm úrkomu sem þýðir að jafngildir því að 500 lítrar af vatni falli á hvern fermetra lands. Hvetur Veðurstofan fólk til þess að halda ró sinni og alls ekki fara út fyrir hússins dyr. 

Yfir 30 þúsund heimili í Queensland eru án rafmagns og heilu byggðarlögin nánast sambandslaus. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert