Hnepptu hjálparstarfsmenn í gíslingu

Sprengjutilræði eru tíð í Jemen.
Sprengjutilræði eru tíð í Jemen. AFP

Uppreisnarmenn í Jemen hafa tekið sjö starfsmenn hjálparsamtaka í gíslingu. Um er að ræða starfsfólk International Medical Corps. 

„Við erum að vinna að því að leysa málið eins fljótt og auðið er,“ segir í yfirlýsingu samtakanna sem eru með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. 

Samtökin hafa ekki viljað gefa frekari upplýsingar um málið en önnur hjálparsamtök í Jemen staðfesta að gíslarnir séu allir Jemenar og að þeir hafi verið teknir í gíslingu í héraðinu Ibb.

International Medical Corps eru með 150 starfsmenn í Jemen og hafa starfað í landinu frá árinu 2012. Samtökin styðja við fjölskyldur á svæðum sem eru undir yfirráðum uppreisnarmanna í Ibb sem og í borgum í suðurhluta landsins þar sem stjórnarherinn fer með völd en Ríki íslams hefur verið að sækja í sig veðrið.

Hútar, vopnuð samtök minnihlutahóps, hafa náð yfirráðum yfir landsvæðum í norðurhluta landsins. Hútarnir berjast við stjórnarher Mansour Hadi forseta sem nýtur stuðnings bandalags ríkja, m.a. Sádi-Araba. 

Hjálparsamtök og stofnanir hafa lengi gagnrýnt slæmt aðgengi að þeim sem verst hafa orðið úti í stríðinu í Jemen. Hundruð þúsunda manna eru í sárri neyð og þurfa aðstoð. Meira en 7.700 hafa verið drepnir í stríðinu sem hefur geisað samfleytt í tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert