Já gegn „barnabörnum nasismans“

Erdogan virðist ónæmur fyrir gagnrýni annarra Evrópuleiðtoga og segist m.a. …
Erdogan virðist ónæmur fyrir gagnrýni annarra Evrópuleiðtoga og segist m.a. opinn fyrir því að taka upp dauðarefsinguna á ný. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hvatti í dag Tyrki búsetta í Evrópu til að svara „barnabörnum nasismans“ með því að segja í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fer 16. apríl nk.

Tillagan sem liggur fyrir snýr að því að leggja niður forsætisráðherraembættið og auka framkvæmdavald forsetans en sérfræðingar segja atkvæðagreiðsluna marka krossgötur í nútímasögu Tyrklands.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla stendur yfir frá 27. mars til 9. apríl en fjölmargir Tyrkir búa víða í Evrópu, þeirra á meðal 1,4 milljónir í Þýskalandi, og atkvæði þeirra kunna að skipta sköpum.

Erdogan fagnaði kosningaþátttöku Tyrkja erlendis í dag og sagði stefna í mun meiri kosningaþátttöku en í þingkosningum árið 2015.

„Látum þá verða fleiri sem segja í atkvæðakössunum. Ef það er guðs vilji, veita þeim nauðsynlegt svar sem tala fyrir fasískum aðferðum, þessum barnabörnum nasismans!“ sagði hann á kosningafundi í Rize.

Ummæli forsetans munu líklega setja enn meira álag á samskiptin við önnur Evrópuríki, sem versnuðu mjög eftir að yfirvöld í Þýskalandi og Hollandi meinuðu tyrkneskum ráðherrum að ávarpa kosningafundi í ríkjunum í mars.

Erdogan svaraði með því að leggja ákvarðanir ákveðinna ríkja að jöfnu við nasisma, þrátt fyrir áköll evrópskra leiðtoga um að hann færi varlegar í yfirlýsingum sínum.

„Reynið eins og ykkur lystir að hindra bræður okkar og systur í Evrópu frá því að kjósa. Systkini okkar þar munu stútfylla kjörkassana í Evrópu, með guðs blessun,“ sagði forsetinn.

Þá bætti hann við að Tyrkir myndu ekki leyfa „þremur eða fimm evrópskum fasistum að vega að heiðri landsins.“

Margir stuðningsmenn Erdogan hafa kallað eftir því að dauðarefsing verði tekin upp á ný og forsetinn sagðist myndu samþykkja slíka tillögu ef þingið gerði slíkt hið sama. Hann sagði hins vegar einnig koma til greina að taka málið fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Endurupptaka dauðarefsingarinnar myndi jafngilda endalokum aðildarumleitanna Tyrkja gagnvart Evrópusambandinu. Erdogan hefur hins vegar sagt að það skipti engu.

Stuðningsmenn Erdogan á fjöldafundi á laugardag.
Stuðningsmenn Erdogan á fjöldafundi á laugardag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert