Ríkisstjóri blandar sér í dómsmál

AFP

Ríkisstjóri Flórída, Rick Scott, sem er repúblikani, hefur ákveðið að víkja saksóknara í Orlando, Aramis Ayala, frá þar sem hún ætlar ekki að fara fram á dauðarefsingu í 21 morðmáli. 

Scott segir að með þessu sé Ayala, sem er demókrati, að senda röng skilaboð út í samfélagið. Hún segir að ástæðan fyrir því að hún fari ekki fram á dauðarefsingu í morðmálunum sé glundroði í lögunum. Ákvörðun hennar var víða mótmælt, segir í frétt BBC.

En ekki eru allir ósáttir við ákvörðun hennar og í síðustu viku var haldinn fundur henni til stuðnings í höfuðstað Flórídaríkis, Tallahassee.

Í gær tilkynnti Scott síðan að með neitun Ayala um að fara fram á dauðarefsingu sendi hún röng skilaboð út í samfélagið og með þessu sýni saksóknari að hún hafi ekki einu sinni áhuga á að berjast fyrir réttlætinu.

Ayala, sem var valin saksóknari í kosningu, sakar ríkisstjórann um misbeitingu valds og um leið að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár um sjálfstæði dómskerfisins. Hún tók við embætti saksóknara í janúar en kjörtímabil hennar í starfi er fjögur ár. Málið sem setti allt á annan endann varðar mann sem er sakaður um að hafa drepið lögreglumann í Orlando.

Þegar Ayala sagði í síðasta mánuði að hún myndi ekki fara fram á dauðadóm yfir hinum ákærða, Markeith Loyd, vék ríkisstjórinn henni frá málinu. Hann setti það í hendur Brad King ríkissaksóknara sem mun einnig taka yfir morðmálin 21 sem voru tekin af Ayala í gær.

Undanfarna fimmtán mánuði hefur hart verið tekist á um dauðarefsingar í Flórída. Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu í janúar 2016 að dauðarefsingar í Flórída brytu gegn stjórnarskrá landsins þar sem þær gæfu dómurum of mikil völd yfir kviðdómendum.

Scott, sem styður dauðarefsingar, skrifaði undir frumvarp til laga í síðasta mánuði sem er ætlað að greiða fyrir dauðarefsingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert