Bandaríkjamenn hóta frekari aðgerðum

Nikki Haley er sendifulltrúi Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar.
Nikki Haley er sendifulltrúi Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar. AFP

Bandaríkjamenn hafa  hótað því að grípa til frekari hernaðaraðgerða í Sýrlandi í kjölfar árásar þeirra á herstöð stjórnarhersins í gærkvöldi, sem gripið var til vegna efnavopnaárásar í Khan Sheikhun á þriðjudag.

Vesturveldin segja stjórn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta hafa staðið að baki efnavopnaárásinni.

„Bandaríkin gripu til yfirvegaðra aðgerða í gærkvöldi,“ sagði Nikki Haley, sendifulltrúi Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, á fundi öryggisráðsins í dag. „Við erum reiðubúin til að gera meira en vonum að það reynist ekki nauðsynlegt.“

Öryggisráðið var boðað til neyðarfundar í dag til að ræða aðgerðir Bandaríkjamanna í Sýrlandi, sem Rússar sögðu meðal annars brjóta gegn alþjóðalögum.

Haley staðfestu að árásirnar hefðu beinst gegn herstöð þaðan sem efnavopnaárásin á Khan Sheikhun er talin hafa verið gerð. Sagði hún að Bandaríkin hefðu verið í fullum rétti.

86 létust í Khan Sheikhun, þar af 27 börn en Bandaríkin og bandamenn þeirra segja sökina liggja hjá Assad.

„Bandaríkin munu ekki lengur bíða eftir því að Assad beiti efnavopnum án afleiðinga,“ sagði Haley. „Þeir dagar eru liðnir.“

Hún sagði hins vegar einnig tímabært að knýja fram pólítíska lausn í sex ára borgarastyrjöld landsins. „Nú verðum við að hefja nýjan fasa; vinna í átt að pólitískri lausn á þessum hryllilegu átökum.“

Haley skaut á Rússa og gagnrýndi þá fyrir að mistakast að halda aftur af bandamanni sínum. Heimurinn biði þess að þeir endurskoðuðu hollustu sína við Sýrlandsforseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert