Bandamenn Assad hóta hefndum

Reykjarmökkur stígur til himins eftir árásir á vígi uppreisnarmanna í …
Reykjarmökkur stígur til himins eftir árásir á vígi uppreisnarmanna í Daraa. AFP

Bandamenn Sýrlandsstjórnar hótuðu í dag hefndum gegn hverjum þeim sem réðist gegn Sýrlandi, tveimur dögum eftir að Bandaríkjamenn létu til skarar skríða gegn herstöð í landinu.

„Með árásunum á Sýrlandi er farið þvert yfir allar rauðar línur. Við munum svara af staðfestu öllum árásum gegn Sýrlandi og öllum yfirgangi þvert á rauðar línur, hver svo sem stendur fyrir því,“ segir í yfirlýsingu frá samhæfingarmiðstöð Rússlands, Íran og annarra bandamanna Bashar al-Assad Sýrlandsforseta í Sýrlandi.

„Bandaríkin þekkja vel viðbragðsgetu okkar,“ segir í yfirlýsingunni, sem var birt á vef Al-Watan, dagblaðs með tengsl við Sýrlandsstjórn.

Á föstudag gerðu yfirvöld í Washington sína fyrstu árás gegn stjórn Assad frá því að borgarastyrjöldin í landinu braust út fyrir um sex árum. Árásin var refsiaðgerð vegna efnavopnaárásar sem Bandaríkjamenn segja Sýrlandsstjórn hafa staðið fyrir í bænum Khan Sheikhun.

Að minnsta kosti 87 létust í árásinni, þar af mörg börn.

„Við fordæmum allar árásir á almenna borgara og einnig það sem átti sér stað í Khan Sheikhun, jafnvel þótt við séum þess fullviss að um var að ræða gjörning skipulagðan af ákveðnum ríkjum og samtökum til að búa til yfirskyn til að ráðast á Sýrland,“ sagði einnig í yfirlýsingunni.

Fleiri en 320.000 hafa fallið í átökunum í Sýrlandi síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert