Bannar níu aftökur í Arkansas

AFP

Alríkisdómari í Arkansas-ríki kom í dag í veg fyrir áætlanir yfirvalda í ríkinu um taka nokkra fanga af lífi. Vísar dómarinn til stjórnarskrá Bandaríkjanna þar sem lagt er bann við grimmilegum og sjaldgæfum refsingum. 

Ríkisstjórinn í Arkansas, repúblikaninn Asa Hutchinson, hefur haldið því fram að flýta verði aftökunum þar sem eitt af lyfjunum sem nota á við aftökur í ríkinu er að renna út. Enginn hefur verið tekinn af lífi í ríkinu síðan árið 2005.

Ákvörðun dómarans, Kristine Baker, sem er dómari við alríkisdómstól austur-umdæmis Arkansas, nær yfir fyrirhugaðar aftökur á níu föngum. Sex þeirra átti að taka af lífi í þessum mánuði en tveir höfðu áður fengið tímabundna frestun. Ekki var búið að tímasetja aftöku þess níunda.

Baker skrifar í ákvörðun sinni að áttunda grein stjórnarskrárinnar banni grimmilegar og sjaldséðar refsingar og því leggi hún bann við fyrirhuguðum aftökum. Lögmenn fanganna höfðu krafist þess að fá lengri tíma til þess að undirbúa áfrýjun málanna en talsmaður ríkissaksóknara í Arkansas segir að dómnum verði væntanlega áfrýjað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert