Vilja svipta Ösmu ríkisborgararéttinum

Asma al-Assad í París árið 2010.
Asma al-Assad í París árið 2010. AFP

Frjálslyndir demókratar hafa hvatt innanríkisráðherrann Amber Rudd til að svipta Ösmu al-Assad, eiginkonu Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, breskum ríkiborgararétti sínum vegna stuðnings hennar við stjórn eiginmannsins.

Asma al-Assad fæddist í Bretlandi og er með tvöfalt ríkisfang. Að sögn Tom Brake, talsmanns Frjálslyndra demókrata í utanríkismálum, hefur hún unnið sér það til saka að taka afstöðu með forsetaembættinu sýrlenska. Undir þetta tekur Nadhim Zahawi, þingmaður Íhaldsflokksins, sem segir Ösmu hluta af áróðursmaskínu stríðsglæpamanna.

„Forsetafrú Sýrlands hefur hegðað sér ekki eins og almennur borgari, heldur talsmaður sýrlenska forsetaembættisins. Boris Johnson hefur hvatt önnur ríki til að gera meira varðandi Sýrland en breska ríkisstjórnin gæti sagt við Ösmu Assad; hættu að nota stöðu þína til að verja villimannslega gjörninga eða þú verður svipt ríkisborgararétti þínum,“ segir Brake.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert