Tryggir Trump frið í Mið-Austurlöndum?

Donald Trump Bandaríkjaforseti var bjarsýnn eftir fund sinn með Mahmud …
Donald Trump Bandaríkjaforseti var bjarsýnn eftir fund sinn með Mahmud Abbas, leiðtoga Palelstínu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er bjartsýnn á að hann geti tryggt frið í Mið-Austurlöndum. Trump tilkynnti í gær að hann mundi heimsækja Ísrael í fyrstu opinberu ferð sinni út fyrir landsteinana frá því hann tók við forsetaembættinu.

En hefur eitthvað breyst sem réttlætir þessa bjartsýni forsetans, að honum muni takast það sem forverum hans í starfi hefur reynst ómögulegt til þessa?

Trump tók á móti Mahmud Abbas, leiðtoga Palelstínu, í Hvíta húsinu nú í vikunnu og sagði að loknum þeim fundi að leitin að friði væri „satt best að segja, kannski ekki jafn erfið og fólk hefði áður talið“.

Síðar í þessum mánuði  mun Trump heimsækja Ísrael og Sádi-Arabíu og kveðst AFP-fréttastofan hafa heimildir fyrir því að hann muni þá heimsækja Abbas og ráðamenn á Vesturbakkanum í leiðinni.

Ferð forsetans er ætlað að fá stuðning Bandaríkjanna gegn írönskum áhrifum í þessum heimshluta og til að öðlast stuðning í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.

Stjórnmálaskýrendur í Washington eru ekki bjartsýnir á að heimsókn Trumps muni leiða til þess að samningar náist milli ráðamanna í Ísrael og Palestínu.

Þeir útiloka þó ekki að Trump, sem óneitanlega verður að teljast litríkur forseti, nái að framkalla vissa þíðu í samskiptum deiluaðila og granna þeirra í Mið-Austurlöndum, sem byggst geti á sameiginlegum hagsmunamálum ríkjanna.

David Makovsky, prófessor í Mið-Austurlandafræðum og fyrrverandi ráðgjafi bandaríska utanríkisráðneytisins, segir ráðamenn í Mið-Austurlöndum greinilega vilja að Trump láti til sín taka á þessum slóðum til að draga úr áhrifum Írans. „Þess vegna hafa þeir ákveðið að vera mjög bjartsýnir og Abbas ætlar greinilega að vera á sama máli,“ sagði Makovsky.

Og vilji stjórnvöld í Mið-Austurlöndum tryggja afskipti Bandaríkjanna af málum fyrir botni Miðjarðarhafs að þá kunni þau að vera tilbúin að gera ýmsar málamiðlanir í því skyni.

„En það er mikill munur milli þess að vera bjartsýnn og að ná fram tímamótabreytingum,“ segir hann.

Hussein Ibish, fræðimaður við Arab Gulf States Institute, segir það koma Trump vel að hann komi að samningaborðinu með mjög lítinn farangur. „Það kunna allir við hann í augnablikinu,“ sagði hann. „Palestínumenn kunna við hann, Ísraelsmenn kunna við hann og arabarnir kunna við hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert