Framfaraflokkurinn hafnar inngöngu í ESB

Siv Jensen, leiðtogi norska Framfaraflokksins.
Siv Jensen, leiðtogi norska Framfaraflokksins. Ljósmynd/Magnus Fröderberg / Norden.org

Framfaraflokkurinn í Noregi hefur í fyrsta sinn þá stefnu að leggjast gegn inngöngu Noregs í Evrópusambandið en til þessa hefur stefna flokksins verið sú að málið yrði útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ný stefna var samþykkt á landsfundi flokksins um helgina. Fjallað er um breytta stefnu Framfaraflokksins í Evrópumálum á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK.

Fyrir landsfundinn hafði utanríkismálanefnd Framfaraflokksins lagt fram tillögu um að flokkurinn legðist formlega gegn inngöngu í Evrópusambandið og var hún samþykkt. Forystumenn Framfaraflokksins hafa undanfarna mánuði talað á þeim nótum en komið hefur fram í fjölmiðlum að vaxandi andstaða væri innan flokksins við inngöngu í sambandið.

Frétt mbl.is: „Í dag myndi ég kjósa nei“

Fram kemur í ályktun Framfaraflokksins um Evrópumál að Evrópusambandið hefði fjarlægst upphaflegt markmið sitt að stuðla að friði, frelsi og samvinnu í Evrópu og yrði á sama tíma sífellt meira skriffinnskubákn. Framfaraflokkurinn myndar núverandi ríkisstjórn Noregs ásamt Hægriflokknum en þingkosningar verða í landinu í haust.

Framfaraflokkurinn vill einnig semja um endurbætur á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Noregur er aðili að ásamt Íslandi, Liechtenstein og öllum ríkjum Evrópusambandsins. Vill flokkurinn að samningurinn verði túlkaður með þrengri hætti til þess að standa betur vörð um fullveldi Noregs og þjóðarhagsmuni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert