Íbúar Mosúl fastir í dauðagildru

„Bakvið veggina eru herbergi og kjallarar fullir af fólki sem …
„Bakvið veggina eru herbergi og kjallarar fullir af fólki sem er of hrætt til að hreyfa sig um set. Og fólk er að deyja úr hungri.“ AFP

Bardagamenn Ríkis íslam hafa gripið til þess ráðs að koma fyrir sprengjugildrum á heimilum almennra borgar og læsa þá inni, í undirbúningi fyrir lokaviðureignina um Mosúl. Fleiri látast nú í borginni af völdum hungurs en af völdum bardaganna sem standa yfir og íbúar segja vígamennina gera allt til að koma í veg fyrir að þeir flýji.

Íraskar hersveitir nálgast nú óðum síðasta vígi hryðjuverkasamtakanna í borginni en þau  hafa ítrekað beitt almennum borgurum sem skjöldum. Einn íbúa Zinjili-hverfisins sagði í talhólfsskilaboðum til ættingja að liðsmenn Ríkis íslam hefðu komið heim til hennar og logsoðið hurðina fasta. Þeir hefðu yfirgefið fjölskylduna með örlítið af vatni og hvítan klút.

Konan situr föst ásamt eiginmanni sínum og fjórum börnum.

Aðföng voru þegar af skornum skammti þegar umfangsmiklar aðgerðir stjórnarhersins til að ná Mosúl aftur af vígamönnunum hófust í október í fyrra. Eftir margra mánaða bardaga eru aðstæður íbúa í þeim hverfum þar sem Ríki íslam hafa enn ítök ekkert annað en skelfilegar.

35 ára maður, sem sagðist í samtali við AFP heita Abu Rami, sagði hryðjuverkasamtökin leggja mikla áherslu á að koma í veg fyrir að íbúarnir flýji. „Þeir hafa verið að gera þetta undanfarið. Þegar þá grunar að fjölskylda ætli að flýja til öryggissveitanna þá læsa þeir fólkið inni,“ segir hann.

Reykur stígur til himins er íraskar hersveitir sækja að Mosúl.
Reykur stígur til himins er íraskar hersveitir sækja að Mosúl. AFP

Flestir deyja úr hungri

„Þeir hafa haldið þó nokkrum fjölskyldum með þessum hætti og í sumum tilfellum logsoðið dyrnar fastar til að vera vissir,“ segir Rami. Húsin í Mosúl eru oft þannig byggð að á þeim er aðeins ein útihurð.

„Þessar fjölskyldur geta valið milli þess að deyja úr hungri, sjúkdómum eða í sprengjuárásum.“

Abdulkarim al-Obeidi, aðgerðasinni frá Mosúl, segist telja að um 250.000 almennir borgarar séu enn fastir í Gömlu borginni í vesturhluta borgarinnar og á nokkrum öðrum svæðum.

„[Þeir] eru að læsa dyrum með fjölskyldur inni á þeim svæðum sem hafa ekki verið frelsuð. Þeir eru að halda fólki,“ segir hann.

Obeidi telur um 600 liðsmenn Ríkis íslam enn í borginni, sem þýðir að þeir eiga við mikið ofurefli að etja. Það þýðir aftur að notkun almennra borgara sem varnargarðs milli þeirra og stjórnarhersins er að verða mikilvægur þáttur varnaráætlunar samtakanna.

„[Þeir] hafa allt sem þeir þurfa þar sem þeir hafa ruðst inn á heimili fólks og rænt öllum matarbirgðum,“ segir Obeidi. Hann hvetur bandamenn til að koma neyðargögnum til borgarinnar loftleiðina.

„[Ríki íslam] vilja sá hryllingi meðal borgara með þessari ógeðslegu aðferð að logsjóða fólk inni,“ segir Hossameddin al-Abbar, stjórnmálamaður í Nineveh, ríkinu þar sem Mosúl er höfuðborg.

„Fólk er að deyja úr hungri og sjúkdómum, sérstaklega börn og eldra fólk,“ segir hann en ómögulegt sé að giska á fjölda. „Á þessum tímapunkti deyja fleiri úr hungri en í sprengingum og bardögum.“

Trésmiðurinn Abbas Najjar smíðar líkkistur. Fleiri deyja nú úr hungri …
Trésmiðurinn Abbas Najjar smíðar líkkistur. Fleiri deyja nú úr hungri í Mosúl en af völdum bardaganna sem standa yfir. AFP

Sprengjugildrur

Önnur aðferð sem vígamennirnir hafa gripið til til að koma í veg fyrir að fólk flýji er að koma sprengjugildrum fyrir í húsum þeirra. Hátt settur liðsforingi hjá úrvalssveitum íraska hersins segir sveitirnar hafa fundið nokkrar fjölskyldur við slíkar aðstæður frá því að aðgerðir hófust í norðvesturhluta Mosúl í síðustu viku.

„Ríki íslam-gengin eru að koma fyrir gildrum á heimilum þar sem fjölskyldur dvelja enn,“ sagði Thamer Abu Turab í samtali við AFP. „Við höfum fundið átta slík hús, þar sem sprengjusveitir okkar gátu aftengt búnaðinn og komið fjölskyldunum út.“

Aðferðir hryðjuverkamannanna virðast bera árangur þar sem fáar fjölskyldur hafa reynt að flýja. Margir borgarar sem ekki hafa verið lokaðir inni af Ríki íslam velja að gera það sjálfir og hafast við í kjöllurum með þær birgðir sem þeir búa að.

Abu Imad, veitingahúsastarfsmaður á miðjum aldri, býr með fimm manna fjölskyldu sinni í Zinjili. Hann segir íbúana skelfingu lostna. „Bakvið veggina eru herbergi og kjallarar fullir af fólki sem er of hrætt til að hreyfa sig um set. Og fólk er að deyja úr hungri,“ sagði hann við AFP.

„Ég þekki fólk sem er farið að borða plöntur og sjóða pappír. Ef fer sem horfir munum við brátt sjá fólk leggja sér ketti og hunda til matar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert