Segja meginland Bandaríkjanna í sjónmáli

Kim er sagður hafa faðmað embættismenn í kjölfar eldflaugaskotsins.
Kim er sagður hafa faðmað embættismenn í kjölfar eldflaugaskotsins. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu segja meginland Bandaríkjanna „í sjónmáli“ hvað varðar möguleikann á eldflaugaárás. Sérfræðingar segja Hwasong-12 eldflaugina sem Norður-Kórea prófaði um helgina mögulega geta náð til Guam, þar sem Bandaríkjamenn eru með herstöð.

Ríkisfréttastofan KCNA sagði Hwasong-12 flaugina geta borið stóran kjarnaodd og var leiðtoginn Kim Jong-un sagður hafa faðmað embættismenn eftir tilraunaskotið.

Eldflauginni var skotið óvenjuhátt, líklegast til að forðast gagnrýni fyrir að ógna öryggi grannríkjanna, en samkvæmt KCNA náði hún 2.111 km hæð og flaug tæpa 800 km áður en hún féll í Japanshaf.

Flestir sérfræðingar draga í efa að Norður-Kórea eigi raunverulega eldflaugar sem geta náð meginlandi Bandaríkjanna. Þeir segja hins vegar mögulegt að Hwasong-flaugin geti náð Guam.

Það eitt og sér sé ekki endilega ástæða til að óttast en Hwasong-flaugin gæti mögulega verið undanfari enn öflugri flaugar sem gæti raunverulega náð á meginlandið. Slík flaug myndi marka vatnaskil.

Stjórnvöld vestanhafs hafa varað við því að tilraunir með eldflaugar sem ná heimsálfa á milli, svo og fleiri kjarnorkutilraunir, kunni að gefa tilefni til hernaðaraðgerða gegn Norður-Kóreu.

Þá þykir tilraunin um helgina skilaboð til Suður-Kóreu, þar sem nýr forseti tók við völdum í síðustu viku.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun hittast á morgun til að ræða eldflaugaskotið. Leiðtogar Kína og Rússlands hafa þegar lýst áhyggjum sínum vegna málsins.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert