Segja stjórnvöld reka líkbrennsluofn til að losa sig við ummerki um fjöldamorð

Þúsundir eru sagðir hafa verið drepnar í Saydnaya.
Þúsundir eru sagðir hafa verið drepnar í Saydnaya. AFP

Stjórnvöld í Sýrlandi starfrækja líkbrennsluofn í herfangelsinu Saydnaya til að útrýma líkamsleifum þúsunda fanga sem hafa verið myrtir. Þessu halda bandarísk stjórnvöld nú fram en myndir af meintum líkbrennsluofni eru frá 2015.

Það var Stuart Jones, aðstoðarutanríkisráðherra skrifstofu málefna Austurlanda nær, sem fékk blaðamönnum gervihnattamyndir af fangelsinu en myndirnar virðast sýna snjó bráðna á þakinu.

Að sögn Jones hófu yfirvöld endurbætur á Saydnaya árið 2013 til að rýma fyrir líkbrennsluofni.

„Þrátt fyrir að mörg hroðaverk stjórnarinnar liggi ljós fyrir teljum við að bygging líkbrennsluofnsins sé tilraun til að breiða yfir umfang fjöldamorðsins sem á sér stað í Saydnaya,“ segir Jones.

Hann segir gögn stjórnvalda í Washington byggja á upplýsingum frá áreiðanlegum mannúðarsamtökum og „bandaríska leyniþjónustusamfélaginu“.

Allt að 50 eru taldir hengdir daglega í Saydnaya.

Jones gaf ekki upp hversu margir eru taldir hafa verið drepnir í fangelsinu en vitnaði í tölur frá Amnesty International sem áætla að 5.000 til 11.000 manns hafi dáið í Saydnaya milli 2011 og 2015.

Þá sagði hann að 65.000 til 117.000 hefðu verið í haldi stjórnar Bashar al-Assad forseta á sama tíma.

Sem fyrr segir eru myndirnar sem Jones afhenti blaðamönnum tveggja ára gamlar. Ekki liggur fyrir hvers vegna Bandaríkjamenn kjósa að uppljóstra um málið á þessum tímapunkti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert