Neita ásökunum um líkbrennsluofn

Sýrlensk yfirvöld neita því að þeir noti líkbrennsluofn til að …
Sýrlensk yfirvöld neita því að þeir noti líkbrennsluofn til að losa sig við ummerki um fjöldamorð. AFP

Ríkisstjórn Sýrlands hefur staðfastlega neitað því að hafa notað líkbrennsluofna til að losa sig við ummerki um fjöldamorð. Bandarísk stjórnvöld halda því fram að stjórnin í Sýrlandi hafi notað líkbrennsluofna en myndir af meintum ofni eru frá 2015.

Friðarviðræður vegna átakanna í Sýrlandi héldu áfram í Genf í dag en síðustu fimm tilraunir til friðarumleitana hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Ólíklegt þykir að viðræðurnar núna skili árangri en spennan er mikil eftir ásakanir Bandaríkjamanna frá því í gær.

Þeir staðhæfa að líkbrennsluofn sé í herfangelsinu í Saydnaya. Tölur frá Amnesty International áætla að 5.000 til 11.000 manns hafi dáið í Saydnaya milli 2011 og 2015 en allt að 50 manns eru hengdir daglega þar.

„Þessar ásakanir eru tilefnislausar. Þær eru ekkert nema ímyndun þessarar stjórnar og starfsmanna hennar,“ kom fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Sýrlands.

Salem al-Meslet, talsmaður HNC-nefnd­ar­inn­ar svo­kölluðu, sem sér um samn­ingaviðræður fyr­ir hönd upp­reisn­ar­manna í Sýr­landi, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að nefndin svaraði þessum ásökunum.

„Bandaríkjamenn vita hvað er að gerast í Sýrlandi. Til að það sé hægt að bjarga sýrlensku fólki þurfum við hjálp frá Bandaríkjunum, frá vinum okkar, og ég vona að þeir geri það eins fljótt og auðið er,“ sagði al-Meslet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert