Fundu 20 kg af heróíni í Lundúnaflugi

Flugvél Pakistan International Airlines-flugfélagsins á leið til lendingar í Islamabad.
Flugvél Pakistan International Airlines-flugfélagsins á leið til lendingar í Islamabad. AFP

Yfirvöld í Pakistan greindu frá því í dag að þau hefðu fundið 20 kg af heróíni um borð í farþegaþotu pakistanska flugfélagsins Pakistan International Airlines (PIA) á leið frá Islamabad til London.

Heróín hefur fundist í þrígang um borð í vélum flugfélagsins frá því í ágúst á síðasta ári, m.a. á Heathrow-flugvelli í London í síðustu viku að því er Reuters-fréttastofan segir frá.

Mashhood Tajwar, talsmaður PIA, sagði í yfirlýsingu að yfirvöld hefðu skipulagt leit í fjórum flugvélum í dag. „Í einni vélanna, PK785, sem var á leið frá Islamabad til London, fundust 20 kg af heróíni,“ sagði í yfirlýsingunni.

Vélinni var leyft að taka af stað að leit lokinni, en frekari rannsókn stendur enn yfir.

Pakistönsk yfirvöld fundu í desember á síðasta ári 16,7 kg af heróíni um borð í vél flugfélagsins, sem var á leið til Sádi-Arabíu og þá voru 12 starfsmenn flugfélagsins handteknir eftir að 6 kg af heróíni fundist í vél sem var á leið til Dubai í ágúst.

Ekki hefur verið gefið upp hversu mikið heróín fannst um borð í vélinni í London í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert