Þrír fórust og eins er saknað

Frá Everest.
Frá Everest. AFP

Þrír fjallgöngumenn fórust á Everest um helgina og eins er saknað samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Nepal. Jafnframt hefur þurft að bjarga á annan tug fjallgöngumanna af fjallinu síðustu þrjá daga. Vilborg Arna Gissurardóttir náði hins vegar takmarki sínu aðfaranótt sunnudags og stóð á toppi Everest. 

Samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitum sem starfa á og við Everest er helgin ein sú mannskæðasta á fjallinu í tvö ár. Öll dauðsföllin nú um helgina má rekja til háfjallaveiki. Alls hafa fimm farist á Everest í vor en tíðarfar hefur verið mjög slæmt, óvenjuhvasst og -kalt. Veðrið skánaði heldur um helgina og opnaðist því gluggi upp á tindinn og nýttu margir tækifærið. 

Yfir eitt hundrað fjallgöngumenn ætla að reyna við suðurhlið Everest í dag eða áður en veðrið versnar á nýjan leik.

Fjallgöngumaðurinn Vladimír Strba frá Slóvakíu fannst látinn á Everst í gær, aðeins nokkur hundruð metra fyrir neðan tindinn sjálfan. 

Að sögn Kamal Parajuli hjá ferðamálaráði Nepal var Strba í meira en átta þúsund metra hæð, en það er þekkt sem „dauðasvæðið“. Á svipuðum slóðum lést bandaríski fjallgöngumaðurinn Roland Yearwood en hann var ekki kominn jafnhátt og Strba. Dauðasvæðið er þekkt fyrir að vera mjög erfitt yfirferðar auk þess sem súrefnisskortur hrjáir marga og veldur háfjallaveiki.

Ástralskur fjallgöngumaður lést um helgina Tíbet-megin á Everest en hann var kominn í 7.500 metra hæð þegar háfjallaveikin tók völdin. 

Fjórði fjallgöngumaðurinn, sem er frá Indlandi, komst á tind Everest á laugardag en hefur verið saknað síðan þá. Fararstjóri hans frá Nepal fannst meðvitundarlaus skammt frá búðum fjögur og var hann töluvert mikið kalinn þegar hann fannst. Ekkert hefur hins vegar spurst til indverska mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert