Kólerutilfellum fjölgar um 10.000 á 3 dögum

Jemens stúlka sem talin er með kóleru í einangrunartjaldi á …
Jemens stúlka sem talin er með kóleru í einangrunartjaldi á einni heilsugæslustöðvanna. 10.000 manns eru talin hafa greinst með sjúkdóminn á sl. þremur dögum. AFP

Kólerutilfellum í Jemen hefur fjölgað um 10.000 á síðustu þremur sólarhringum og er nú talið að  65.300 manns séu með sjúkdóminn. Rúmlega 1.000 börn leita þá til heilsugæslustöðva í landinu á degi hverjum vegna niðurgangs og að minnsta kosti 532 hafa farist úr kóleru síðasta mánuðinn, þar af 109 börn.

UNICEF , Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sem sendir frá sér fréttatilkynningu um málið, segir raunverulegar tölur yfir dauðsföll þó kunna að vera mun hærri. Sameinuðu þjóðirnar hafa brugðist við ástandinu með því að senda 40 tonn af hjálpargögnum til Jemen, þörf sé þó á mun meira magni hjálpargagna.

„Jemen er á barmi hörmunga. Vatnsveitur, hreinlætisaðstaða og heilsugæslukerfið  eru komin að hruni og rúmlega 27 milljónir Jemena standa nú frammi fyrir sannkölluðum hörmungum,“ segir dr. Meritxell Relaño sem fer fyrir starfi UNICEF í Jemen og kvað börnin verða hvað verst úti í þessum hamförum af mannavöldum. „Alþjóðasamfélagið þarf að styðja langtíma uppbyggingu í félagsþjónustu, vatnsveitu og hreinlætismálum. Annars munu bannvænir sjúkdómar koma upp aftur og kosta mun fleiri lífið.“

Tveir þriðju íbúa Jemen hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni, helmingur af heilbrigðiskerfi landsins er í lamasessi og heilbrigðisstarfsfólk hefur ekki fengið laun greidd í rúma átta mánuði. Segir UNICEF heilbrigðiskrefið alltof máttlítið í núverandi stöðu til að geta unnið gegn kólerunni. 

Starfsfólk UNICEF og samstarfsaðilar þeirra vinni því nú myrkranna á milli að því að hindra kólerufaraldur í landinu.

Bendir UNICEF á Íslandi á að hluti af því fé sem safnast hjá samtökunum hér á landi fari til aðstoðar við börn í Jemen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert