„Þetta er virðingarleysi og hneyksli“

Frá leik liðanna á þriðjudag.
Frá leik liðanna á þriðjudag. AFP

Yfirmenn knattspyrnusambands Sádi-Arabíu hafa beðist afsökunar á hegðun leikmanna liðsins þegar þeir tóku ekki þátt í einnar mínútu þögn til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárásar í London fyrir leik gegn Ástralíu á þriðjudag.

Ástralskir leikmenn stóðu í einnar mínútu þögn á meðan liðsmenn Sádi-Arabíu stóðu víðsvegar um völlinn, teygðu og bjuggu sig undir leikinn.

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur greint frá því að ekki verði gripið til refsiaðgerða gegn Sádi-Arabíu vegna málsins. Málið hafi verið skoðað aftur og ekki þótt ástæða til að grípa til aðgerða.

Átta létu lífið í hryðjuverkaárásinni þar af tveir ástralskir ríkisborgarar.

Yfirmenn knattspyrnusambands Ástralíu segja að mótherjar þeirra hafi verið búnir að samþykkja einnar mínútu þögn fyrir leikinn. 

Starfsmenn knattspyrnusambands Sádi-Arabíu bentu þeim áströlsku á að mínútu þögn fyrir leik væri ekki hluti af menningunni þar í landi. Þeir hefðu í hyggju að færa sig af vellinum og virða þannig aðgerðir Ástralanna.

„Þetta snýst ekki um menninguna,“ sagði ástralski þingmaðurinn Anthony Albanese. „Þetta er virðingarleysi og mér fannst þetta algjört hneyksli.“

Þrír leikmenn Sádi-Arabíu stóðu kyrrir á meðan aðrir hituðu sig upp.

„Leikmenn ætluðu ekki að vanvirða minningu fórnarlamba árásarinnar,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu frá knattspyrnusambandi Sádi-Arabíu.

„Knattspyrnusamband Sádi-Arabíu fordæmir öll hryðjuverk og sendir fjölskyldum fórnarlamba, breskum almenningi og ríkisstjórn landsins samúðarkveðjur.“

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka