Sló konu fyrir að klæðast stuttbuxum

AFP

Baráttufólk fyrir jafnrétti kynjanna hefur brugðist ókvæða við fréttum og myndum af tyrkneskum karl sem réðst á unga konu í strætó í Istanbul fyrir að klæðast stuttbuxum á heilögum föstumánuði múslíma, Ramadan.

Asena Melisa Saglam, sem er háskólanemi í Istanbul, sat í rólegheitum í strætisvagni þegar maðurinn fyrir aftan hana stendur upp og slær hana í andlitið þegar hann gengur fram hjá henni.

Hún stendur upp og eltir hann en hann grípur í hana og hrindir. Síðan hleypur hann út úr vagninum.

Saglam segir að áður en maðurinn sló hana hafi hann stöðugt verið að rífa kjaft við hana og gagnrýnt hana fyrir að klæðast stuttbuxum á Ramadan. Hún reyndi að hunsa manninn og setti heyrnartól upp en allt kom fyrir ekki.


Maðurinn var handtekinn og yfirheyrður en látinn laus að því loknu en við yfirheyrslu sagði hann að honum hafi verið ögrað.

„Að láta árásarmanninn lausan er hótun í garð allra kvenna,“ segir í færslu baráttusamtakanna We Will Stop Femicide Platform á Twitter. „Við klæðumst hverju því sem okkur dettur í hug utandyra. Við látum frelsi okkar ekki af hendi.“

Vegna þess hversu harkalega samfélagið brást við lausn mannsins var hann handtekinn aftur en ekki er vitað hvort hann hafi verið látinn laus að nýju.

Á fyrstu fimm mánuðum ársins voru 173 konur myrtar í Tyrklandi en stjórnarandstæðingar í landinu saka ríkisstjórnina um að fylgja harðlínustefnu íslamista sem gengur þvert á hugmyndir Mustafa Kemal Atatürk stofnanda nútíma Tyrklands en hann afnam kalífadæmið sem þar var árið 1922 og jók mjög réttindi kvenna. 

Stjórnvöld neita þessu harðlega og segja að á sama tíma og þau hafi heimilað konum að ganga með höfuðklúta í skólum og hernum þá hafi þau aldrei bannað tyrkneskum konum að klæðast að eigin geðþótta.

Réttarhöld standa yfir í Tyrklandi yfir manni sem sparkaði í konu þar í landi í fyrra fyrir að klæðast stuttbuxum og á hann yfir höfði sér allt að níu ára fangelsi verði hann fundinn sekur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert