Harry vildi losna úr konungsfjölskyldunni

Harry prins hefur sökkt sér í góðgerðarstörf.
Harry prins hefur sökkt sér í góðgerðarstörf. AFP

Harry Bretaprins var eitt sinn svo ósáttur við að vera hluti af konungsfjölskyldunni að hann vildi „losna úr henni“.

Hann íhugaði að afsala sér titli sínum en ákvað að lokum að halda honum og sinna hlutverki sínu innan konungsfjölskyldunnar eins og hann kysi.

Harry ræddi þetta í viðtali við Mail on Sunday sem birt var í dag. Hann er nú fimmti í erfðaröðinni að krúnunni og segir að herinn hafi verið „besta flóttaleiðin“ sem hann nokkru sinni hafði.

Hann segir að konungsfjölskyldan vilji ekki vera í hópi frægra heldur vinna gott starf í þágu þjóðarinnar. 

Harry er nú 32 ára. Hann var tíu ár í hernum og fór m.a. tvisvar sinnum til Afganistan á þeim tíma. Hann átti ekki afturkvæmt þangað eftir að frétt um veru hans þar birtist í fjölmiðlum árið 2007.

„Ég var mjög bitur. Að vera í hernum var besta flóttaleiðin sem ég hafði. Mér fannst ég vera að ná árangri í einhverju.“

Frá þeim tíma hefur hann sökkt sér ofan í margvísleg góðgerðarmál, m.a. er varða særða hermenn og geðheilbrigði.

Hann segir að áhugi hans á góðgerðarstarfi komi frá móður hans, Díönu heitinni. „Ég hef unun af góðgerðarstarfi og að hitta nýtt fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert